Viðar hættur með Hött/Huginn

Viðar Jónsson hefur látið af störfum sem þjálfari liðs Hattar/Hugins í þriðju deild karla í knattspyrnu. Viðar mun ekki stýra liðinu síðustu tvo leikina í Íslandsmótinu ef þeir verða spilaðir.

Félagið tilkynnti í kvöld að stjórn þess og Viðar hefðu komist að samkomulag um þetta. Þar kemur fram að í samningi Viðars hafi verið uppsagnarákvæði í október hvert ár sem báðir aðilar hafi ákveðið að rétt væri að nýta.

Stjórnin þakkar Viðar fyrir samstarfið og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. „Ákvörðunin er ekki léttvæg enda Viðar drengur góður og flottur þjálfari.“

Viðar tók við þjálfun í kjölfar þess að Höttur og Huginn ákváðu að sameina lið sín haustið 2018. Undir hans forustu varð liðið í sjötta sæti þriðju deildar í fyrra.

Það er nú í tíunda sæti, tveimur stigum frá liðunum í fallsætunum. Annað þeirra á hins vegar leik til góða. Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur ákveðið að lokið verði við leik á Íslandsmótinu verði æfingar og keppni leyfðar eftir 3. nóvember.

Verði keppni hætt áður heldur Höttur/Huginn sæti sínu. Stjórn liðsins ákvað í síðustu viku að halda ekki erlendum leikmönnum liðsins lengur vegna fjárhagsörðugleika.

Samkvæmt leikjadagskrá á Höttur/Huginn heimaleik gegn Sindra 7. nóvember og útileik gegn Ægi 14. nóvember. Þær upplýsingar fengust hjá Hetti/Huginn í kvöld að ekki væri ráðið hver myndi stýra liðinu í þeim leikjum en verið væri að skoða möguleikana og málið skýrist á næstu dögum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.