Úrslitaleikur um vonina framundan

Höttur og Haukar eru áfram í fallsætum úrvalsdeildar karla í körfuknattleik eftir leiki gærkvöldsins. Liðin mætast innbyrðis í næstu umferð, þeirri næst síðustu.

Höttur tapaði í gærkvöldi 85-100 fyrir Þór Þorlákshöfn á Egilsstöðum. Úrslitin í leiknum réðust nánast í öðrum leikhluta þar sem flest allt gekk upp hjá gestunum en ekkert hjá heimamönnum. Þórsarar unnu leikhlutann 33-15 og voru 32-51 yfir í hálfleik.

Höttur átti frábæran annan leikhluta og náði að minnka muninn niður í sex stig, 74-80, áður en síðasti leikhlutinn hófst. Höttur var enn inni í leiknum um miðbik hans þegar miðherjinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson fór út af með sína fimmtu villu. Eftir það fjaraði aftur undan leik Hattar.

Leikurinn í gærkvöldi var með þeim hraðari sem sést hafa á Egilsstöðum í vetur enda leggur Þórsliðið leiki sína þannig upp. Bæði lið gerðu hins vegar fjölda mistaka, Þór tapaði boltanum 24 sinnum en Höttur 18 sinnum. Einkum var þetta í fyrsta leikhlutanum þegar Þór tapaði níu boltum og Höttur sjö. Þá var þriggja stiga nýtingin einnig í lágmarki en hún lagaðist þegar á leið.

„Við þurfum að byggja á þriðja leikhlutanum. Við getum verið þetta góðir og þurfum á því að halda í næsta leik,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Höttur er sem fyrr í fallsæti með 12 stig, líkt og Haukar sem töpuðu fyrir Val. Liðin mætast í Hafnarfirði á fimmtudagskvöld. Njarðvík er næst fyrir ofan með tveimur stigum meira. Leikurinn á fimmtudag er því svo að segja hreinn úrslitaleikur um möguleikann á að halda úrvalsdeildarsætinu.

Fallbarátta deildarinnar er óvenju spennandi í ár. Ekki bara er sjaldgæft að lið með 12 stig sé í fallhættu heldur líka hversu mörg lið eru á fallsvæðinu þótt ÍR kæmi sér úr mestu hættunni, upp í 16 stig við hlið Þórs Akureyri, með sigri á Stjörnunni í gær.

Tímabilið 2016-17 féll Skallagrímur með 14 stig í 11. sæti. Veturinn 2012-13 féll Fjölnir sem neðsta lið með 10 stig. Þar fyrir ofan voru Tindastóll, KFÍ og ÍR með 12 stig en Tindastóll féll á innbyrðisviðureignum. Þetta eru þó undantekningin, nokkrum sinnum hafa bæði fallliðin verið með minna en tíu stig. Versti árangurinn var þó 2016-17 þegar Snæfell fékk ekki stig.

Úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í blaki hefst í kvöld. Þróttur heimsækir HK í Kópavogi.

Mynd: Körfuknattleiksdeild Hattar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.