Orkumálinn 2024

Úr knattspyrnu í pílukast

Vopnfirðingurinn Dilyan Kolev tryggði sér nýverið keppnisrétt í íslensku úrvalsdeildinni í pílukasti næsta haust. Frami Kolevs í pílunni hefur verið skjótur en hann byrjaði að stunda íþróttina í Covid-faraldrinum. Hann segir góðan grunn úr íþróttum nýtast í pílunni en hann hefur spilað fótbolta með Einherja frá 2015.

„Mér finnst gaman að keppa í íþróttum. Ég var farinn að færa mig yfir í maraþonhlaup fyrir Covid en þá var lítið hægt að gera þannig ég keypti mér píluspjald. Fyrst var ég bara heima að kasta en síðan skráði ég mig á mót á Akureyri í janúar 2022 og vann þar bronsdeildina,“ segir Kolev.

Hann hefur síðan haldið áfram og í apríl vann hann gulldeildina sem tryggir honum rétt í úrvalsdeildinni næsta haust. Hún fer af stað í lok ágúst og verður sýnd í sjónvarpi.

Kolev kveðst hafa sett meiri alvöru í píluna í ár og að það hafi skilað árangri. Í byrjun árs komst hann í útsláttarkeppni Reykjavíkurleikanna. Í maí keppti hann á Íslandsmótinu. Hann vann þrjá leiki í riðlakeppninni, þar með talið gegn Matthíasi Erni Friðrikssyni, sem Kolev lýsir sem besta pílukastara landsins, en það dugði þó ekki til að komast í útsláttinn.

Útbúa aðstöðu fyrir Vopnfirðinga


Kolev hefur að undanförnu unnið að því að byggja upp píluaðstöðu á Vopnafirði og notið við það aðstoðar formanns Einherja, Víglunds Páls Einarssonar. Nýverið samþykkti útgerðarfélagið Brim að leggja til sal. „Þetta er ekki bara fyrir mig heldur til að styrkja félagslífið á Vopnafirði, sérstaklega á veturna. Þá er gaman að hittast og kasta pílum.“

Aðstaðan er skref í að jafna aðstöðumuninn en fjarlægðin mun alltaf skipta máli. „Mig vantar meiri reynslu, ég næ bara 5-6 mótum á ári. Pílukastarar úr Reykjavík og Grindavík, Grindavík er með bestu deildina, eru alltaf að keppa. Það kostar mig 60 þúsund að fara á eitt mót í Reykjavík á meðan það kostar þá ekki neitt. Nú eru fyrirtæki hér á Vopnafirði að byrja að styrkja mig og það er mikils virði.“

Kolev í keppni við Matthías Örn Friðriksson, Íslandsmeistara 2020, 2021 og 2022, í maí. Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.