Tveir Austfirðingar Danmerkurmeistarar í blaki

Galdur Máni Davíðsson og Þórarinn Örn Jónsson, fyrrum leikmenn Þróttar Neskaupstað, urðu í síðustu viku danskir meistarar í blaki með liði sínu Marienlyst-Fortuna. Fyrr í vetur varð liðið danskur bikarmeistari.

„Tilfinningin að skora síðasta stigið var geðveik. Höllin trylltist af fagnaðarlátum. Ég man bara að ég hljóp inn á völlinn og beint í fangið á Tóta áður en allt liðið sameinaðist í hring til að fagna,“ segir Galdur Máni.

Hann var á þessari stundu út af vellinum fyrir frelsingjann, stöðuna sem Þórarinn Örn eða Tóti, spilar. Þeir hafa báðir verið fastamenn í liðinu í vetur. Galdur var að ljúka sínum þriðja vetri hjá félaginu en Þórarinn þeim fyrsta. Þriðji Íslendingurinn hjá félaginu er síðan Ævarr Freyr Birgisson frá Akureyri.

Marienlyst, sem kemur úr Óðinsvéum, spilaði til úrslita um Danmerkurmeistaratitilinn við Nordenskov. Liðin höfðu spilað þrjá leiki í vetur sem allir fóru í oddahrinu, Marienlyst unnið tvo en Nordenskov einn. Í úrslitunum hafði Marienlyst yfirburði og vann 3-2 í fyrsta leiknum á heimavelli, 3-1 í öðrum leiknum í Nordenskov og loks 3-1 á heimavelli en vinna þurfti þrjá leiki í einvíginu.

„Það var geggjuð tilfinning að vinna meistaratitilinn eftir alla leikina í vetur, erfiðar æfingar og alls konar fórnir í hinu daglega lífi en sjá síðan að það borgaði sig að lokum,“ segir Galdur Máni.

Tímabilið var gott hjá Marienlyst sem áður vann deildarmeistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn. Marienlyst varð síðast danskur meistari 2016 og 2017 en vann bikarinn 2018.

Frá vinstri: Ævarr, Þórarinn Örn og Galdur Máni. Mynd: Aðsend


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.