Tinna Rut kemur heim í Þrótt

Blakkona Tinna Rut Þórarinsdóttir hefur ákveðið að snúa aftur í Þrótt og spila með liðinu út leiktíðina eftir að sænsku deildakeppninni lauk um helgina. Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir fagnaði þar deildarmeistaratitli. Bæði meistaraflokkslið Þróttar töpuðu á heimavelli um helgina.

Tinna Rut gekk í raðir Lindesberg Volley síðasta sumar en liðinu gekk ekki vel og varð í næst neðsta sæti deildarinnar. Tinna Rut, sem fædd er árið 2000, öðlaðist þar hins vegar dýrmæta reynslu. Hún vann sig inn í liðið eftir sem á leið og kom við sögu í 12 af 20 leikjum liðsins og skoraði 53 stig. Hún hefur komist um samkomulag um að snúa aftur í sitt gamla félag og spila með því út leiktíðina.

Annar fyrrum Þróttari, Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, fagnaði deildarmeistaratitlinum um helgina. Lið hennar Hylte/Halmstad varð í efsta sæti deildarinnar með 56 stig. Liðið náði frábærum árangri, tapaði aðeins 5 hrinum og einum leik, þeim þriðja síðasta. Sex efstu lið deildarinnar halda áfram í úrslitakeppni.

Hér heima áttu bæði meistaraflokkslið þróttar heimaleiki á laugardag. Kvennaliðið tapaði 0-3 gegn HK eða 18-25, 20-25 og 23-25 í hrinum. Liðið er í 5. sæti með 6 stig, stigi á eftir Álftanesi en liðin berjast við Þrótt Reykjavík um fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppninni.

Karlaliðið tapaði mikilvægum leik gegn Aftureldingu 1-3 eða 19-25, 25-19, 13-25 og 27-29. Liðið er einnig í fimmta sæti en töluvert bil, eða fimm stig, hefur nú myndast milli þess og Aftureldingar sem eru í fjórða sætinu.

Tveggja vikna hlé verður nú gert á deildinni og spilað í bikar. Karlaliðið er reyndar úr leik eftir ósigur gegn Hamri í fyrstu umferð en kvennaliðið mætir KA á útivelli á miðvikudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.