Orkumálinn 2024

Þróttur Íslandsmeistari í blaki kvenna! – Myndir

Þróttur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna með 3-0 sigri á Aftureldingu í þriðja leik liðanna um titilinn í Neskaupstað í gærkvöldi. Yfirburðir Þróttar í leiknum voru algjörir.

Það má segja að tóninn hafi verið gefinn í fyrstu sendingu leiksins, hún var Aftureldingar og fór beint í netið. Afturelding komst reyndar í 1-2, fyrra skiptið af tveimur þar sem liðið var yfir í leiknum í gær.

Í stöðunni 4-3 fór Særún Birta Eiríksdóttir í uppgjöf. Uppgjafir hennar ollu Aftureldingu miklum vandræðum en hún byrjaði með ás. Síðasta uppgjöf Særúnar að þessu sinni fór yfir völlinn en þá var staðan líka orðin 11-3.

Afturelding var í miklum vandræðum með uppgjafir Þróttar alla hrinuna sem leiddi til þess að sóknir liðsins urðu bitlausar. Þá sjaldan sem liðið náði gagnsókn virtist vörn Þróttar vita hvar ætti að verjast. Afturelding treysti á að geta spilað upp á Haley Hampton en hún var á löngum kafla föst í aftari línu, auk þess sem hávörn Þróttar og síðan aftari línan voru klár þegar hún komst upp.

Meira að segja þegar vörnin virtist klikka var meistaraheppnin með Þrótti, nokkrum sinnum náðu leikmennirnir að henda sér niður og skófla upp boltum sem voru við það að lenda í jörðinni eða hlaupa út fyrir völlinn. Í eitt skiptið gerðist hvort tveggja og eftir langa sókn endaði stigið Þróttar megin.

Þróttur vann því fyrstu hrinuna 25-13 og þar með var tónninn gefinn. Liðið var mun kraftmeira og Afturelding virtist takmarkaða trú hafa á verkefninu. Í lið gestanna vantaði Maríu Rún Karlsdóttur, sem alist hefur upp hjá Þrótti, en meiðsli sem hún hefur glímt við í vetur tóku sig upp á ný í öðrum leiknum á miðvikudag. Án hennar varð leikur Aftureldingar enn takmarkaðri.

Aftureldingu haldið í öruggri fjarlægð

Þróttur náði snemma þriggja stiga forskoti í annarri hrinu og bætti heldur við það. Um miðja hrinuna minnkaði Afturelding muninn reyndar niður í tvö stig en þá skellti Þróttur í frábæra hávörn og bjó aftur til þægilegt forskot.

Lokastaðan í hrinunni varð 25-17 eftir tvær glæsilegar og áþekkar sóknir sem jafnframt endurspegluðu yfirburði Þróttar. Fyrst var spilað upp fyrir Helenu Kristínu Gunnarsdóttur sem náði föstu smassi langt aftan af velli og svo fylgdi Paula Gomez eftir með öðru eins.

Heimamenn á Norðfirði tala um að „þriðju hrinu heilkennið“ hafi fylgt Þrótti í vetur, að oft hafi liðið misst einbeitinguna og hreinlega tapað þriðju hrinu. Leikmenn liðsins leyfðu sér að brosa eftir aðra hrinu, þær vissu að örlögin voru alfarið í þeirra höndum því Aftureldingarliðið var brotið.

Afturelding komst vissulega 0-1 yfir í hrinunni en Þróttur tók strax frumkvæðið. Yfirburðirnir voru ekki jafn miklir og áður. Þróttur komst í 8-4 en þá kom trúlega besti kafli Aftureldingar í leiknum og jafnt var í 9-9.

Aftur var jafnt 11-11 en þá skellti Þróttur aftur í lás með frábærri hávörn sem skilaði tveimur stigum í röð og fljótt var forskotið orðið 14-11. Þar með var björninn í raun unninn og staðan fljótt orðin 17-12.

Um 300 stuðningsmenn Þróttar stóðu á fætur í stöðunni 20-15, öruggir um að titillinn væri í höfn. Afturelding átti reyndar næsta stig en tilfinningin í húsinu var sú að allir vissu að úrslitin væru ráðin og síðustu sóknaratlögur gestanna báru keim af því. Lokastaðan var 25-17 og 3-0 í hrinum.

Níundi titillinn

Norðfirðingar fögnuðu því níunda Íslandsmeistaratitli sínum í blaki kvenna, sá fyrsti vannst 1996 og sá síðasti 2013. Enginn leikmanna liðsins var í því liði en það var hins vegar María Rún sem sat á bekk Aftureldingar. Helena Kristín Gunnarsdóttir var hins vegar í meistaraliðinu 2011.

Paula Gomez var stigahæst Þróttar með 13 stig og fyrirliðinn Særún Birta skoraði 10.

Áður en Íslandsmeistaratitillinn fór á loft var tilkynnt um að Fjarðabyggð hefði ákveðið að styrkja blakdeild Þróttar um 600.000 krónur fyrir góðan árangur í vetur. Þá styrkti Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað deildina um hálfa milljón á hvern titil eða 1,5 milljón alls þar sem liðið hafði þegar hampað deildar- og bikarmeistaratitlunum.

Þeir voru við innganginn í salinn í gærkvöldi og fór á loft í fagnaðarlátunum.

Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0003 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0007 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0012 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0016 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0018 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0042 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0059 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0068 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0069 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0095 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0100 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0103 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0110 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0119 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0123 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0131 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0135 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0146 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0152 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0158 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0162 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0168 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0192 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0197 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0202 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0205 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0228 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0241 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0245 Web
Blak Throttur Umfa Leikur2 April18 0246 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.