Þegar Pelé kom til Egilsstaða

Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Péle lést eftir veikindi þann 29. desember síðastliðinn. Hann heimsótti Egilsstaði árið 1991 og vígði þar grasvöllinn.

Á árunum 1956 til 1974 lék Pelé með Santos í Brasilíu og skoraði þar 643 mörk í 659 leikjum áður en hann hélt til Bandaríkjanna og lék með New York Cosmos frá 1975 til 1977.

Það voru þó hvorki afrek Pelé með Santos eða New York Cosmos sem færðu hann á spjöld íþróttasögunnar heldur var það frammistaða hans á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu með brasilíska landsliðinu.

Hann var fastamaður í landsliðinu frá 1957 til 1971 og skoraði 77 mörk í 92 leikjum. Hann lék vann Heimsmeistaramótið þrisvar sinnum; árið 1958, 1962 og 1970 og er sá eini í sögunni til að afreka það.

Pele á leið til landsins

Vorið 1991 fór að spyrjast út hér á landi að knattspyrnugoðsögnin Pelé væri mögulega á leið til landsins. „Hugsanlegt er að knattspyrnusnillingurinn Pele komi til lands í sumar, í lok júlí eða byrjun ágúst. Heimsóknin yrði í tengslum við alþjóðlegt átak „Fair play“ - höfum rétt við. Pele vinnur að þessu átaki. Það eru KSÍ og VISA Ísland, sem standa að átakinu hérlendis,“ sagði á baksíðu Tímans í maí árið 1991. Heimildir Tímans reyndust vera réttar og dagana 12. - 15. ágúst dvaldist Pelé á Íslandi og fór víða á þeim fáu dögum.

Með Ásgeiri Sigurvins á Egilsstöðum

Í ferð sinni um landið kom Pelé m.a. við á Akranesi þar sem hann var gerður að heiðursfélaga ÍA, á Akureyri og loks á Egilsstöðum. „Sl. mánudag heimsótti brasilíska knattspyrnugoðið Pele Egilsstaði ásamt íslenska knattspyrnumanninum Ásgeiri Sigurvinssyni, Eggerti Magnússyni forseta Knattspyrnusambands Íslands o. fl.

Gestirnir fengu höfðinglegar móttökur á Egilsstöðum og var m.a. efnt til sérstaks pollahraðmóts í tilefni komu þeirra. Þá vígði Pele grasvöllinn á Egilsstöðum með því að taka á honum upphafsspyrnu og skora fyrsta markið.

Að sögn Hermanns Níelssonar formanns knattspyrnudeildar Hattar ríkir mikil ánægja með komu Pele, Ásgeirs og forráðamanna knattspyrnuíþróttarinnar og segir hann að gleðin og ánægjan hafi svo sannarlega skinið úr andlitum ungu austfirsku knattspyrnumannanna þegar Pele heilsaði upp á þá og gaf þeim eiginhandaráritanir,“ sagði á forsíðu Austurlands eftir komu Pele en hann var á Egilsstöðum 12. ágúst.

Kafli um Egilsstaði í ævisögunni

Heimsóknin var stutt en Pele kom fljúgandi um hádegið frá Akureyri og flaug svo um miðjan dag frá Egilsstöðum til Vestmannaeyja. Þrátt fyrir skamma dvöl á landinu var gefin út fyrir jólin 1991 ævisaga Pelé á íslensku og lokakaflann skrifaði blaðamaðurinn Víðir Sigurðsson um Íslandsferð Pelé.

Þar er haft eftir Hermanni Níelssyni um vígslu nýja vallarins á Egilsstöðum: „Pelé og Ásgeir Sigurvinsson tóku miðju, og síðan dansaði Pelé upp völlinn með boltann og skoraði með pottþéttu skoti frá vítateig í bláhornið. Ég hef aldrei séð aðra eins líkamsbeitingu við markskot, það var hrein list. Þó þarna væri fimmtugur maður á ferð, fór ekki á milli mála að um hreinan snilling var að ræða.“

Þá segir á öðrum stað: „Á flugvellinum á Egilsstöðum voru staddir ítalskir ferðamenn og augun ætluðu útúr höfðum þeirra þegar þeir sáu sjálfan Pelé þar. Á dauða sínum áttu þeir von, en ekki á því að rekast á sjálfan Pelé í lítilli flugstöð á Íslandi.“ Þessar frásagnir má svo sannreyna því öll heimsókn Pelé til Egilsstaða var tekin upp af Austfirska sjónvarpsfélaginu og eru þær upptökur varðveittar á Kvikmyndasafni Íslands.

Þessi frásögn birtist áður í Austurglugganum í ágúst 1991 í tilefni þess að 30 ár voru liðin frá komu Pelé til Egilsstaða.

Pele ásamt kvennaliði Hattar sem í lok sumars tryggði sér sæti í efstu deild. Á myndinni eru frá vinstri í aftari röð: Oddný Freyja Jökulsdóttir, Þórdís Þórdís Björg Ingólfsdóttir, Pelé, Ragnheiður Bergdís Bryndísardóttir, Íris Hrafnkelsdóttir, Vordís Svala Jónsdóttir, Ásgeir Sigurvinsson, Jóhanna Bjarnveig Magnúsdóttir og Hilmar Gunnlaugsson.
Aftari röð frá vinstri: Adda Birna Hjálmarsdóttir, Olga Soffía Einarsdóttir, Lovísa Sigurðardóttir, Ester Jökulsdóttir, Hugrún Hjálmarsdóttir, Elva Rún Klausen og Ása Heiður Rúnarsdóttir. Mynd: Ljósmyndasafn Austurlands/Austri


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.