Þau sem prófuðu glímuna komu næstum alltaf aftur

Kristín Embla Guðjónsdóttir frá Reyðarfirði varð í síðasta mánuði glímudrottning Íslands í þriðja sinn. Hún segist hafa fylgt vinkonu sinni á fyrstu glímuæfinguna tíu ára gömul og fljótt orðið hugfangin af íþróttinni.

„Það góða við glímuna á Reyðarfirði var hversu opið allt var, allir velkomnir öllum stundum og æfingar voru mjög reglulegar með góðum þjálfurum. Þeir sem prófuðu einu sinni komu næstum alltaf aftur og sjálf hef ég ekki misst áhugann síðan þá,“ segir Kristín Embla.

Hún kemur úr mikilli glímufjölskyldu, systur hennar Elín Eik og Fanney Ösp hafa einnig glímt með góðum árangri. Foreldrar þeirra, Guðrún Bóasdóttir og Guðjón Magnússon, hafa einnig stutt þær vel þótt þau hafi ekki fengist til að prófa að glíma.

„Þau hafa svo sem aldrei hvatt okkur beinlínis til að fara í glímuna, en stutt okkur þegar sú varð raunin. Pabbi tekur nokkurn þátt svona baksviðs en hvorugt hafa þó viljað prófa að fara út á gólfið og prófa íþróttina.“

Kristín Embla er nú að ljúka B.Sc. námi í landafræði og segir óráðið hvað taki við eftir útskrift. Hvað svo sem verði hafi hún hug á að glíma áfram.

„Ég er alls ekkert að hætta í glímunni enda finnst mér enn ótrúlega gaman að taka þar þátt. Væri alveg til í að glíma eins lengi og ég get og miðað við þá sem farið hafa á undan mér þá gæti ég átt tíu til fimmtán ár eftir.“

Mynd: UMF Valur

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.