Telja tíma kominn á nýtt íþróttahús

Foreldrar barna á Eskifirði telja vænlegra að byggja nýtt íþróttahús á staðnum frekar en lappa upp á núverandi aðstöðu sem verið hefur til mikilla vandræða að undanförnu, einkum vegna leka. Kallað er eftir aðgerðum til að tryggja að heilsu barna sé ekki ógnað í húsinu. Sveitarfélagið segir vatnslagnir í veggjum hafa gefið sig.

Óánægja með húsið, sem byggt var árið 1968, hefur löngum kraumað á Eskifirði en atvik síðustu vikur virðast hafa fyllt mælinn. Reynt var að grípa til aðgerða vegna leka fyrr í haust en í byrjun vikunnar varð ljóst að það hefði ekki tekist.

Eins og Austurfrétt hefur áður greint frá því var ekki talið öruggt að standa þar fyrir knattspyrnuæfingum í vikunni. Íþróttakennarar kenndu í hálfum salnum. Þá hafa foreldrar óskað eftir að börn þeirra þurfti ekki að mæta í íþróttatíma af ótta við myglu. Skólastjórnendur hafa orðið við því uns niðurstöður mygluprófs liggja fyrir.

Óska eftir fundi með bæjarstjóra

Foreldrar á Eskifirði boðuðu til fundar í gær vegna ástandsins sem var vel sóttur. Á fundinum var ákveðið að óska eftir fundi með bæjarstjóra Fjarðabyggðar auk þess sem skoðað verði að senda mennta- og barnamálaráðherra erindi vegna óviðunandi og mögulega heilsuspillandi aðstæðna í skólaíþróttum.

Fundargestur sem Austurfrétt ræddi við sagði hita hafa verið í fólki og samstaða um að knýja þyrfti fram aðgerðir. Flestir hafi verið á að íþróttahúsið sé barn síns tíma og tími til kominn að byggja nýtt frekar en lappa upp á það sem nú stendur þar sem kostnaður við varanlegar viðgerðir sé væntanlega hærri en nýtt hús með minna viðhaldið til lengri tíma litið.

Í ályktun frá knattspyrnudeild Austra er lýst yfir vonbrigðum yfir að ástandið hafi þurft að verða fullkomlega óboðlegt til að gripið yrði til aðgerða, því húsið hafi verið lekt árum saman. Bent er á að starf deildarinnar sé í þröngri stöðu, ekki hægt að æfa inni í húsinu sé það mögulega heilsuspillandi og þótt reynt sé að leysa málið með sparkvelli á skólalóðinni sé það erfitt í svartasta skammdeginu þar sem ljóskastari yfir vellinum sé bilaður. Skorað er á Fjarðabyggð að taka fulla ábyrgð á að bjóða börnum í sveitarfélaginu viðunandi húsnæði í skólagöngu.

Leki frá þakrennum

Fjarðabyggð hefur með aðstoð sérfræðinga kannað uppsprettu lekans síðustu daga. Í svari við fyrirspurn Austurfréttar kemur fram að niðurföll úr þakrennum hafi á sínum tíma verið byggð inn í veggi hússins. Þau hafi tærst og þar með vatn safnast fyrir í veggjunum. Það finni sér síðan leið út úr veggjunum sem framkalli lekann.

Gengið verði í að loka fyrir niðurföllin og leggja ný utan á. Eins verði veggir brotnir upp, hreinsaðir og þurrkaðir upp. Utanaðkomandi aðili tekur út húsnæðið og kannar hvort mygla sé til staðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.