„Stórt fyrir Hött, Múlaþing og Austurland“

Karlalið Hattar varð í gærkvöldi fyrst austfirskra liða til að tryggja sér sæti í undanúrlitum bikarkeppninnar í körfuknattleik. Liðið vann KR í undanúrslitum á útivelli 93-94 þar sem heimamenn fengu síðasta skot leiksins. Þjálfari Hattar segir spennandi að takast á við nýtt verkefni.

„Að eiga körfuboltalið sem komið er í undanúrslit er stórt fyrir Hött, fyrir Múlaþing og fyrir Austurland. Miðað við fjölda skilaboða sem okkur hafa borist og viðbrögðin þá trúum við að við séum að gera eitthvað fyrir fólki og samfélagið. Samkennd og sjálfstraust fólks eykst við þetta.

Fyrir sum lið er nánast sjálfsagt að komast reglulega þetta nálægt úrslitaleik en fyrir okkur er þetta risaskref,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, eftir leikinn í gærkvöldi.

Um hörkuleik var að ræða í gær þar sem liðin skiptust fimmtán sinnum á forustu og sjö sinnum var jafnt. Þar af skiptust liðin tvisvar á forustunni á næst síðustu mínútunni og þá var tvisvar sinnum jafnt.

Réðist á síðasta skoti

Höttur byrjaði ágætlega, komst úr 4-5 í 4-15 en þá reif KR sig til baka úr 9-18 í 9-20 og var síðan yfir að eftir fyrsta leikhluta, 24-23. Gísli Hallsson byrjaði á að setja þriggja stiga körfu fyrir Hött í öðrum leikhluta en KR var annars með frumkvæðið þar og yfir 50-46 í hálfleik. Sama var uppi á teningnum í þriðja leikhluta, KR með þægilegt forskot, 5-9 stig og yfir 75-70 að honum loknum.

Höttur gerði áhlaup í fjórða leikhluta og komst yfir eftir 3,5 mínútu, 79-81. Á lokamínútunum var mikil spenna. Höttur var loks yfir, 93-94 þegar 55 sekúndur voru eftir. Þá hafði Bandaríkjamaðurinn Tim Guers skorað tíu stig fyrir liðið í röð og 32 alls í leiknum.

Meira var ekki skorað í leiknum þótt bæði lið fengju tækifæri til þess. Fyrst geigaði þriggja stiga skot KR-inga, næst var skot Tim úr teignum varið þegar 15 sekúndur voru eftir og níu sekúndum síðar beygði tveggja stiga tilraun Elbert Matthews, sem skoraði 37 stig fyrir KR, af hringnum og í hendur Nemanja Knezevic, miðvarðar Hattar.

„Við byrjuðum vel en síðan lagðist yfir okkur flatneskja. Við fórum aldrei á flug en það er betra að vera góður og vinna heldur en góður og tapa. Það sýnir styrk að hafa landað þessum sigri. Tim var frábær á lokakaflanum, hann skoraði ein 29 stig í seinni hálfleiknum. Það var síðan mjög ljúft að sjá boltann skoppa af hringnum í lokaskoti KR,“ segir Viðar Örn.

Margt að læra fyrir bikarvikuna

Auk Hattar eru Keflavík, Valur og Stjarnan í undanúrslit. Dregið verður á mánudag og leikið miðvikudaginn 11. janúar. Úrslitin eru síðan strax sunnudaginn 14. janúar.

„Ég hef ekki verið þarna áður, Einar Árni (Jóhannsson, aðstoðarþjálfari Hattar), hefur orðið bikarmeistari. Að ná þessum árangri er áfangi í okkar yfirlýsta markmiði að efla körfubolta á Austurlandi með að koma upp stöðugu úrvalsdeildarliði.

Það er er margt sem við þurfum að kynna okkur hvernig er gert í kringum svona bikarhelgi. Við munum leita til annarra félaga á Körfuknattleikssambandsins um það. Við vonumst til að geta glatt Austfirðinga og þeir hópist á bakvið okkur, bæði þeir sem búa fyrir sunnan en líka þeir sem eru hér. Við skoðum hvort hægt sé að setja upp einhvers konar hópferð.“

Fyrst er samt síðasti deildarleikurinn fyrir jól, gegn Breiðabliki á fimmtudagskvöld á Egilsstöðum. „Við verðum að einbeita okkur að þeim leik og síðan getum við farið að vinna í bikarmálunum. Að við séum komnir þetta langt þýðir ekki að við getum lagst upp í sófa og haft það notalegt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.