Orkumálinn 2024

Stærsta markmiðið að komast aftur á völlinn

María Rún Karlsdóttir, blakkona frá Neskaupstað, var valin íþróttamaður Fjarðabyggðar árið 2017 en hún er ein þriggja sem hefur hlotið nafnbótina tvisvar sinnum. Hún segir langtímamarkmið sitt vera að spila blak eins lengi og mögulegt er.


María Rún hefur lengst af spilað með Þrótti í Neskaupstað en gekk í vetur til liðs við Aftureldingu í Mosfellsbæ. Í umsókn dómnefndar um val íþróttamanns Fjarðabyggðar segir:

„Blakarinn María Rún Karlsdóttir er metnaðarfullur og vinnusamur íþróttamaður. María leggur sig fram í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur og er frábær fyrirmynd innan vallar sem utan. Hún endaði sem stigahæsti leikmaður í heildarskori í Mizuno-deild kvenna keppnistímabilið 2016-2017 sem og stigahæst í sókn. María Rún var valin í lið ársins og einnig tilnefnd í kjöri um besta leikmann Mizuno-deildarinnar. María keppti fyrir A-landslið kvenna í undankeppni HM sem fram fór í Varsjá í maí. María varð svo Evrópumeistari smáþjóða með A landsliðinu í Luxemburg í júní.“

Ein þriggja sem hefur unnið titilinn tvisvar
Hvaða þýðingu hefur það fyrir Maríu Rún að hljóta þessa viðurkenningu? „Þetta er náttúrulega stór viðurkenning og mikill heiður að vera valin íþróttamaður Fjarðabyggðar. Það var mikið af frábæru íþróttafólki tilnefnt og allir áttu það skilið að fá þennan titil. Að vera ein af þrem sem hafa fengið þennan titil tvisvar ásamt mömmu minni er svaka mikill heiður og gaman að geta deilt þessu með henni.“

Er að vinna sig út úr brjósklosi
Árið var annasamt hjá Maríu Rún. „Þetta var mjög fínt ár. Ég byrjaði á því að fara til Ítalíu um páskana með landsliðinu og við tókum þátt í Pasqua Challenge. Spiluðum við lið eins og San Marínó, Skotland og Liechtenstein og unnum mótið með stæl.

Í Þrótti komumst við í undanúrslit i Kjörísbikarnum og Íslandsmeistaratitlinum. Þar lentum við á móti Aftureldingu og komumst því miður ekki i úrslit þrátt fyrir spennandi og skemmtilega leiki. Þegar tímabilinu lauk tóku við æfingar með landsliðinu í Reykjavík. Þær stóðu lengi og ég rétt náði fara heim að útskrifast úr Verkmenntaskóla Austurlands. Þaðan fór ég beint til Póllands og keppti í undankeppni HM með landsliðinu. Það gekk ágætlega, þar sem við kepptum meðal annars við þriðja besta lið heims. Skömmu síðar keppti ég í úrslitum EM smáþjóða þar sem ég var stigahæst í einum leiknum. Við enduðum á að vinna mótið og öðluðumst þannig rétt til þess að taka þátt í undankeppni EM. Þegar öllu þessu var lokið tók ég svo stóra ákvörðun um að flytja suður og ganga til liðs við Aftureldingu og var mjög spennt fyrir tímabilinu. Ég var þó aðeins búin að vera þar í rúma tvo mánuði þegar ég fór að finna fyrir slæmum bakverk sem reyndist vera brjósklos og hef ég þess vegna ekkert verið með síðan í október. Það er þó allt á réttri leið og ég er farin að geta tekið einhvern þátt á æfingum.“

Allir ættu að temja sér þolinmæði
María Rún segir að síðasta ár hafi kennt sér þolinmæði. En hvað er það sem kemur henni svo langt í íþróttinni? „Þolinmæði er lykillinn að svo mörgu í lífinu. Það er ekkert eitt sem er ákveðið lífsgildi fyrir að ná góðum árangri. En það sem ég hef gert er að njóta þess að geta spilað blak og gera mitt besta. Auðvitað er eitthvað inni í þessu líka að hugsa vel um líkamann og það er eitthvað sem ég sé eftir að hafa ekki gert betur í fyrra. Þolinmæði er eitthvað sem allir ættu að temja sér því hlutirnir gerast ekki strax, allt tekur sinn tíma og meiðslin mín hafa sýnt mér það síðustu þrjá mánuðina.“

Langtímamarkmiðið að spila á öldungamóti
María Rún tekur fagnandi á móti nýju ári. „Auðvitað er maður alltaf með einhver markmið, lítil eða stór. Stærsta markmiðið mitt þetta árið er auðvitað að komast aftur á völlinn. Það er allt á réttri leið því ég er nýfarin að mæta á æfingar. Svo stefni ég einnig á að komast út til Evrópu að spila með einhverju liði. Markmið númer eitt, tvö og þrjú er auðvitað að ná mér aftur líkamlega svo ég geti farið að hoppa aftur og hærra en ég gerði. Langtímamarkmiðin mín eru að geta spilað á öldungamótinu eða að spila eins lengi og ég get.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.