Sérdeildin sigraði í Bólholtsbikarnum

bolholtsbikarinn_serdeildin.jpgLið Sérdeildarinnar fagnaði sigri í bikarkeppni UÍA og Bólholts í körfuknattleik eftir 54-53 sigur á Ásnum í úrslitaleik á sunnudag. Fjögur lið tóku þátt í úrslitakeppninni sem fram fór í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum.

 

Dagurinn hófst á fyrri undanúrslitaleiknum þar sem 10. flokkur Hattar, sem lengst af var efstur í deildakeppninni mætti Sérdeildinni. Lykilmenn vantaði í lið 10. flokks og það nýtti Sérdeildin sér, hafði undirtökin allan tímann og vann 41-66.

Í hinum undanúrslitaleiknum mættust Austri og Ásinn. Ásinn hafði þar undirtökin framan af en Eskfirðingar hleyptu Norður-Héraðsmönnum aldrei langt frá sér og komust yfir í þriðja leikhluta, 41-40. Ásinn náði hins vegar að snúða taflinu aftur sér í vil og vann 50-59.

Eftir hádegi var leikið um verðlaunasæti en fyrst mættust 10. flokkur og Austri í leik um þriðja sætið. Sá leikur var sýning Nökkva Jarls Óskarssonar úr 10. flokki og Baldurs M. Einarssonar úr Austra. Nökkvi skoraði 32 stig í leiknum en Baldur 30. Eskfirðingar höfðu undirtökin samt allan leikinn og unnu að lokum 65-86.

Úrslitaleikur Sérdeildarinnar og Ássins stóð undir nafni sem aðalleikur dagsins. Sérdeildin var reyndar yfir nær allan tímann en Ásinn var aldrei langt undan. Ásinn var yfir eftir fyrsta fjórðung, 10-11 en Sérdeildin spilaði vel í öðrum leikhluta og var 30-22 yfir í hálfleik.

Ekki skoraði hún nema sex stig á móti níu stigum Ássins í öðrum leikhluta og staðan var 36-31 að honum loknum. Mikil spenna var því á lokasekúndunum þegar munurinn var aðeins 1-2 stig. Ásinn jafnaði í 53-53 af vítalínunni þegar sjö sekúndur voru eftir. Þeir brutu hins vegar klaufalega af sér og Magnús Jónsson skoraði sigurkörfu Sérdeildarinnar af vítalínunni, 54-53.

Halldór Leifsson var atkvæðamestur leikmanna Sérdeildarinnar í úrslitaleiknum með 14 stig en Magnús Jónsson skoraði þrettán. Hinum megin var það Benedikt Guðgeirsson Hjarðar sem skoraði 18 stig líkt og Sigmar Hákonarson.

Benedikt varð stigahæsti maður mótsins með alls 260 stig og fékk viðurkenningu fyrir það á sama tíma og leikmenn Sérdeildarinnar lyftu Bólholtsbikarnum á loft í fyrsta sinn. Sex lið sendu lið til keppni en auk liðanna fjögurra sem spiluðu í úrslitakeppninni tóku Samvirkjafélag Eiðaþingár og Einherji þátt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.