Spila bridge til minningar um Skúla Sveins

Tæplega þrjátíu pör eru mætt til Borgarfjarðar eystra þar sem bridgemót til minningar um Skúla Sveinsson verður haldið um helgina. Í bland við spilamennskuna verða sagðar sögur af Skúla.

„Við héldum mót um þetta leyti árs árið sem hann lést, 2018. Okkur langaði að halda mót og ákváðum að efna til annars minningarmóts því Skúli hefði orðið sextugur í ár,“ segir Hallveig Karlsdóttir, einn skipuleggjanda mótsins og bróðurdóttir Skúla.

Skúli var eftirminnilegur persónuleiki, setti mark sitt á samfélagið á Borgarfirði, þjónaði fólki á ferð um Víknaslóðir og spilaði bridge af hjartans list.

„Hann hafði mjög gaman af að spila. Þeir voru fimm bræðurnir, miklir spilarar. Ég ólst upp við þetta. Afi minn spilaði mikið við okkur krakkana,“ segir Hallveig.

Von er á hátt í 30 pörum til mótsins um helgina og koma þau víða af landinu. Spilað verður í Álfakaffi og byrjað í kvöld á upphitunarmóti. Aðalmótið sjálft hefst síðan tíu í fyrramálið og verður þar til fimm síðdegis.

Þá verður dagskráin brotin upp, farið í bæjargöngu og pöbbarölt þar sem meðal annars verður farið um mikilsverða staði í lífi Skúla á Borgarfirði. Um kvöldið verður kjötveisla og sögustund um Skúla auk þess sem verðlaunin verða afhent.

„Þetta er töluvert sterkt mót, þeir sem lengst koma eru úr Borgarfirði syðra. Síðan höfum við spilara undan Eyjafjöllum, Suðurlandinu, Reykjavík og alla Austfirðingana. Okkur hefur gengið vel að undirbúa og fengið veglega vinninga. Margir spilaranna hafa aldrei komið hingað og þess vegna sýnum við þeim svæðið líka.“

Sjálf er Hallveig meðal spilara en Sigurður Skagfjörð stýrir keppninni. „Ég lærði bridge fyrir rúmu ári. Ég fékk að fylgjast með fyrra minningarmótinu og þá hét ég því að læra bridge fyrir næsta mót. Ég og makkerinn minn, Svanhildur Hall, höfum verið mjög duglegar að spila og erum komnar í æfingahóp landsliðs kvenna.“

Skúli, lengst til vinstri, á sveitakeppni Austurlands í bridge árið 2013 þar sem hann og félagar í sveit Gistiheimilisins Borgar unnu. Mynd: Ólafur Þór Jóhannsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.