Skíði: Horfa verður í þarfir hvers einstaklings

Þrír af fimm keppendum í Stjörnuflokki á Andrésar Andar leikunum á skíðum í ár voru af Austurlandi. Í þeim flokki skíða börn sem þurfa sérstakan stuðning og keppa þá ýmist í braut með sínum aldursflokki eða í braut sem hæfir þeim sérstaklega. Þjálfari hjá Skíðafélaginu í Stafdal (SKÍS) segir foreldra þakkláta fyrir þann stuðning sem börnunum sé sýndur.

Hildur Jóna Gunnlaugsdóttir, þjálfari hjá SKÍS, segir þjálfara hafa sótt fyrirlestur á vegum Múlaþings um íþróttaiðkun barna sem þurfa sérstakan stuðning. Sá fyrirlestur hafi kveikt áhuga hjá félaginu að gera enn meira fyrir þau börn.

Í fyrravetur hafi félagið síðan haldið námskeið þar sem börnum sem þurfa sérstakan stuðning var boðið upp á einkakennslu í samvinnu við Íþróttafélagið Örvar á Egilsstöðum. Ekki náðist að halda sambærilegt námskeið nú í vetur, heldur hélt hluti þessa hóps áfram og mætti á almennar skíðaæfingar í Skíða- og ævintýraskólanum.

„Við vorum með um 5-6 börn á námskeiðinu og hluti þeirra hélt svo áfram hjá okkur nú í vetur. Ég veit að foreldrar voru mjög þakklátir fyrir þetta námskeið og er mikil þörf á einkakennslu sem þessari, því áhuginn er svo sannarlega fyrir hendi. Við viljum sinna þessum börnum vel og fá fleiri til okkar,“ segir Hildur Jóna.

Einstaklingsíþróttir henta oft betur


Hún útskýrir að huga þurfi vel að börnum sem þurfa sérstakan stuðning því oft henti þeim síður að vera í hópi. Einkakennsla hentar þeim oft betur en fyrst og fremst þarf að horfa í hvernig hver og einn einstaklingur er.

Þar sem Hildur Jóna er kennaramenntuð hefur hún getað sótt í menntun sína við þjálfun barna sem þurfa sérstakan stuðning. Það sama á við um Unni Óskarsdóttur, sem einnig er þjálfari hjá SKÍS. Hún hefur auk þess tekið námskeið í þjálfun barna sem sitja á B-ski sleða.

Hildur Jóna bendir þó á að til að sinna börnum sem þurfa sérstakan stuðning betur í íþróttastarfi þurfi að fylgja þeim aukinn félagslegur stuðningur. Börnin eru gjarnan með stuðning í skólum en slíkur stuðningur er oft ekki í boði að skóladegi loknum þegar farið er út í íþróttastarfið.

„Þar vantar stuðninginn. Staðan er sú að þetta veltur oft á hversu áhugasamir þjálfarar og aðrir eru til að grípa boltann og styðja við þessi börn. Öll börn eiga rétt á tómstundaiðkun og félagsstarfi sem hentar hverjum og einum og því væri draumastaðan sú að allir hefðu stuðning sem þess þurfa.“

Iðkendur SKÍS með þjálfurum í kirkjutröppunum á Akureyri að Andrésar Andar leikunum loknum. Mynd: Hálfdán Helgi Helgason

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.