Sextíu ár frá Íslandsmeti Vilhjálms

Sextíu ár eru í dag liðin frá því að Austfirðingurinn Vilhjálmur Einarsson setti Íslandsmet í þrístökki, 16,70 metra, á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem haldið var á Laugardalsvelli í Reykjavík. Metið stendur enn.

Óhætt er að segja að Vilhjálmur hafi átt frábæran dag á mótinu. Í fyrstu umferð stökk hann 16,26, þremur sentímetrum styttra en þegar hann vann silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum í Melbourne fjórum árum fyrr.

Í þriðju umferð bætti hann fjórum sm. við, stökk 16,30 metra sem var nýtt Íslands- og Norðurlandamet. Í fjórðu umferð stökk hann svo 16,23 sm.

16,46 þrátt fyrir mislukkaða atrennu

Í frásögn Tímans frá mótinu segir að áhorfendur hafi þá haldið að Vilhjálmur væri tekinn að þreytast en svo hafi verið tilkynnt að Vilhjálmur hafi ætlað að reyna einu sinni. Fréttaritari Tímans skrifar að svo hafi virst sem Vilhjálmur hafi verið í keppni við einhvern, trúlega þá Pólverjann Josef Schmidt sem þremur dögum fyrr hafði orðið fyrstur manna í heiminum til að stökkva yfir 17 metra.

Vilhjálmur lagði af stað í stökkið og þótt honum fipaðist í atrennunni hitti hann vel á plankann og stökk 16,46 metra. „Hrifningaralda fór um alla viðstadda - enda annað besta afrek í heiminum í ár,“ skrifar Tíminn.

„Mér fannst þetta ótrúlegur árangur,“ sagði Vilhjálmur á eftir, „því atrennan var misheppnuð og ég varð að klofa til að ná aftur réttum skrefum. Ég var viss um að var viss með sjálfum mér að ég gæti bætt þennan árangur ef síðasta stökkið heppnaðist vel.“

Stóðu á öndinni meðan stökkið var mælt

Því varð úr að Vilhjálmur stökk einu sinni enn og þvílíkt stökk – eða eins og segir í Tímanum: „Þegar Vilhjálmur bjó sig undir síðasta stökkið var óvenjuleg spenna meðal áhorfenda og það hefði mátt heyra saumnál detta. Vilhjálmur tók sér góðan tíma að venju, áður en hann hleypur af stað. Hann er að safna saman öllum kröftum og einbeitni að einu marki, stökkinu sjálfu.

Og nú af stað. Atrennan mjög vel heppnuð. Hann kom á miðjan stökkplankann. Stökkið var geysikraftmikið og vel útfært í alla staði. Og Vilhjálmur kom niður svo langt fyrir framan 16 metra markið, að allir stóðu á öndinni meðan verið var að mæla stökkið. Og nú hljómaði frá hátalaranum 16,70 m!! - menn trúðu varla sínum eigin eyrum.“

Afrakstur nýs stíls

Árangurinn var afrakstur samvinnu Vilhjálms og ungverska þjálfarans Simonyi Gabor sem hafði þróað með honum nýjan stökkstíl. Hnélyftan í miðstökkinu var minni en áður, fóturinn var látinn bíða eða „hanga“ lengur í stökkinu í stað þess að lyfta hnénu eins og áður var. Áður hafði Gabor lofað árangri af nýjum stíl í ágústmánuði og við það stóð hann.

Samhliða þessu reyndi Vilhjálmur að lengja fyrstu tvö stökkin, sem tókst og hann var ánægður með. Í metstökkinu stökk hann 6,06 metra í fyrsta stökki, 5,02 í öðru stökki og 5,62 metra í því þriðja. „Brautin er nú orðin ákaflega góð og skilyrði öll voru sérlega hagstæð. Það er óvíða jafn gott að stökkva og hér í dag,“ sagði hann eftir mótið í Morgunblaðinu.

Mótið var hið síðasta sem Vilhjálmur tók þátt í áður en hann hélt á Ólympíuleikana í Róm þar sem hann keppti mánuði síðar. Hann stökk þar 12,37 metra í annarri umferð og var lengi í verðlaunasæti en féll niður það fimmta undir lok keppninnar. Schmidt sigraði þar með yfirburðum þótt hann væri tölvuert frá meti sínu, stökk 16,81 metra.

Vilhjálmur lést þann 28. desember síðastliðinn, 85 ára að aldri. Íslandsmetið sem hann setti fyrir sextíu árum stendur enn. Það er í hópi elstu Íslandsmeta landsins í frjálsíþróttum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.