Orkumálinn 2024

Æfir hvorki né keppir á meðan lögreglurannsókn stendur

Stjórn Ungmennafélags Einherja á Vopnafirði hefur ákveðið að erlendur leikmaður, sem grunaður er um líkamsárás um síðustu helgi, muni hvorki æfa né keppa með liðinu meðan lögregla rannsakar mál hans. Stjórn félagsins segir lýsingu leikmannsins af atvikinu ekki samræmast þeim fréttum sem af því hafa birst.

Knattspyrnuvefurinn 433.is greindi frá því á þriðjudag að leikmaður Einherja væri grunaður um að hafa stungið annan mann með hnífi í gleðskap í heimahúsi á Akureyri síðastliðið laugardagskvöld. Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur farið fram á farbann yfir manninum.

Stjórn Einherja sendi í kvöld frá sér yfirlýsingu þar sem staðfest er að erlendur leikmaður félagsins sé grunaður um aðild að líkamsárás þar sem grunur er um að hnífur hafi verið notaður.

Þar segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem stjórnin hafi fengið sé atburðarás enn óskýr, að öðru leyti en því að komið hafi til átaka milli þriggja manna sem endað hafi með „hörmulegum hætti.“

Fram kemur að samkvæmt upplýsingum stjórnarinnar sé rannsókn málsins enn á frumstigi og því telji hún óvarlegt að tjá sig frekar um það nú. Hún hafi rætt við leikmanninn sjálfan og hans frásögn sé ekki í samræmi við fyrri fréttaflutning málsins. Þótt hafi verði ákveðið að leikmaðurinn geri hlé á æfingum og keppni meðan rannsókn stendur yfir.

„Við biðjum alla að sýna okkur skilning vegna þessa en við ítrekum að okkur þykir leitt að nafn félagsins hafi verið dregið inn í þetta mál,“ segir að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.