Segir Oddsskarð og Stafdal framúrskarandi skíðasvæði

Snædís Snorradóttir, nýr verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá Múlaþingi, hefur skíðað víða um heim en telur austfirsku skíðasvæðin engu að síður vera meðal þeirra bestu sem hún hafi komist í tæri við.

Snædís kemur úr mikilli skíðafjölskyldu, afi hennar byggði skíðaskála í Bláfjöllum og bróðir hennar, Sturla Snær, hefur undanfarin ár verið einn fremsti skíðamaður Íslands í alpagreinum. Sjálf hefur Snædís verið á skíðum síðan hún var barn og segir skíðaiðkunina nánast trúarbrögð í fjölskyldunni.

„Helsti gallinn við Ísland sem skíðaáfangastaður er að flestar brekkur hér eru svo stuttar. Við eigum enga Alpa hér þar sem það tekur nánast daginn að skíða niður. Hér fer mestallur tími skíðafólks í að fara upp með lyftum og það takmarkar ýmislegt, hvort sem það er þjálfun skíðafólks eða að trekkja að ferðamenn erlendis frá.“

Hún bendir meðal annars á að aðeins séu tveir löglegir stórsvigsbakkar hérlendis, annars á Siglufirði en hinn í Oddsskarði.

Maður hennar er að austan og þau fluttu hingað fyrir nokkrum misserum. Þar kynntist hún austfirsku skíðasvæðunum sem komu henni á óvart. „Ég var hundfúl með að hafa ekki skíðað hér áður þó ég hafi vitað af svæðunum. Mér fannst þetta strax vera bestu skíðasvæði landsins,“ segir hún.

„Það var búið að segja að það væri frábært í Stafdal, en ég trúði því ekki alveg fyrr en á reyndi. Þá var þungt yfir og ekki opið á toppinn, en ég sá strax að þessi brekka er alveg ofboðslega skemmtileg. Allt snýst þetta um hvernig brekkurnar nýtast og í Stafdal er fjallið nýtt mjög vel. Það er ekki bara ein leið upp og niður, heldur ýmsir möguleikar og þó lyftan sjálf sé ekki löng þá er brekkan sjálf merkilega löng og góð.

Degi síðar fórum við í Oddsskarð í frábæru veðri og skíðafæri, sólin skein, enginn á staðnum og ég átti bara bágt með mig þegar ég skíðaði niður og horfði á stórkostlegt útsýnið úr gilinu út á spegilsléttan sjóinn. Það eina sem ég hugsaði var bara hvernig í ósköpunum ég vissi ekki af þessu svæði.“


Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.