„Sé ekki annað en Íslandsmótinu sé endanlega lokið“

Formaður Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar (KFF) telur stjórn Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) vart eiga annarra kosta völ en blása Íslandsmótið í knattspyrnu af. Allt íþróttastarf í landinu er bannað samkvæmt nýjum samkomutakmörkunum fram til 17. nóvember.

„Ég sé ekki annað í stöðunni í dag en að Íslandsmótinu sé endanlega lokið. Mögulega sér stjórn KSÍ aðrar leiðir en mér sýnist ríkisstjórnin núna hafa tekið ákvörðunina fyrir hana,“ segir Helgi Freyr Ólason, formaður KFF.

Félagið sendi áfram Hetti/Huginn og Einherja ályktun til KSÍ um miðjan mánuðinn um að þá væri skynsamlegast að hætta keppni. Síðarnefndu félögin tvö eiga talsverða hagsmuna að gæta þar sem ef mótinu yrði hætt myndu karlalið þeirra sleppa við fall. Karlalið Fjarðabyggðar er hins vegar um miðja aðra deild og öruggt með sitt sæti.

Leiknir Fáskrúðsfirði tók ekki þátt í ályktunni. Félagið skrifaði hins vegar undir með átta öðrum félögum áskorun um að mótinu yrði haldið áfram. Formaður knattspyrnudeildar þess sagði þó í samtali við Austurfrétt þá að mögulega væri skynsamlegast að láta staðar numið. Karlalið þess á enn möguleika á að bjarga sér frá falli úr 1. deild. Þá hefði kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis getað með afar hagstæðum úrslitum komist upp úr 2. deild.

Þversögn að senda íþróttafólk landshorna á milli

Helgi bendir á að það hafi því ekki verið staðan í deildinni sem réði afstöðu Fjarðabyggðar heldur frekar ítrekuð tilmæli frá almannavörnum á Austurlandi um að fólk væri ekki á ferð milli landshluta nema brýna nauðsyn bæri til.

„Í ljósi þeirra tilmæla fannst okkur ekki fýsilegt að senda liðin í landshluta sem ráðlagt væri frá ferðalögin til. Við sendum ályktunina frá okkur því okkur fannst þversögn í að almenningur ætti ekki að vera á ferðalögum en íþróttafólk yrði það,“ segir hann.

Aðeins atvinnumannadeildir eftir

Þótt deildakeppni með atvinnumönnum sé víða hvar í gangi, með ströngum skilyrðum, hefur keppni í héraðs- og áhugamannadeildum í nágrannalöndum Íslands víða verið frestað alveg út nóvember, eða jafnvel að minnsta kosti út árið. Þannig er staðan til dæmis í Noregi, Frakklandi, Hollandi, Svíþjóð og Þýskalandi. Finnar munu ljúka sínum efstu deildum í vikunni og veita engar frekari frestanir vegna kórónuveirunnar.

Í frétt frá þýska knattspyrnusambandinu er haft eftir lækni þess að þótt ólíklegt sé að Covid-19 smit berist á milli leikmanna inn á leikvelli, vegna þess að snerting milli þeirra sé skammvinn auk þess spilað sé utandyra, sé knattspyrnan ekki hættulaus því smit hafi verið rakin til samgangs í búningsklefum og félagssvæði. Ef leikmenn ætla sér að verja liðsfélaga sína smiti þurfi þeir að hætta öðrum félagslegum samskiptum sem mest.

Leikmenn KFF fá ekki greitt fyrir að spila knattspyrnu heldur eru ýmist í skóla eða vinnu. Þeir eigi því erfitt með að fórna því fyrir fótboltann. „Við erum bara áhugamannafélag með leikmenn sem sinna skóla og atvinnu. Það væri vont að setja þá út úr því. Í sumum tilfellum getur þetta jafnvel verið fólk á annað hvort stórum vinnustöðum eða í framlínustörfum,“ segir Helgi.

Fjarðabyggð sendi sína erlendu leikmenn heim þegar samningur þeirra rann út. Helgi segir þó að Fjarðabyggð hafi búið betur en mörg önnur landsbyggðarlið þar sem stór hluti leikmanna væri farinn úr heimahögunum til náms yfir vetrartímann. „Við höfum verið með fínan æfingahóp, skipaðan ungum leikmönnum, sem við höfum treyst í sumar og vorum ekki hræddir við að láta klára tímabilið.“

Varla annað í stöðunni

Aðspurður svara hann að ekki hafi verið tekin sérstök umræða innan leikmannahóps KFF um hvort leikmenn væru tilbúnir að halda áfram að spila. Æfingum hafi verið haldið áfram meðan þær voru leyfðar.

„Við höfum notið þeirra forréttinda að geta hæft enda staðan verið önnur hér eystra hvað smit varðar. Ég get þó ímyndað mér að menn hafi ekki verið spenntir fyrir að ferðast suður.“

Stjórn KSÍ ákvað 20. október að Íslandsmótinu yrði framhaldið, að því gefnu að hægt yrði að hefja æfingar 3. nóvember. Nú er ljóst að af því verður ekki. „Við erum ekki sóttvarnalæknar en okkur fannst þá vandséð hvernig mótinu yrði framhaldið. Því miður er það að sýna sig í dag. Ég sé ekki að það sé annað skynsamlegt en að hætta þessu.“

Um síðustu helgi skýrðist að Dragan Stojanovic myndi ekki þjálfa karlalið Fjarðabyggðar áfram. Verið er að leita að eftirmanni hans. „Það eru ákveðnar þreifingar í gangi. Ef þær ganga eftir þá verður það mjög gott skref fyrir framtíð Fjarðabyggðar og ég yrði mjög ánægður.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.