Sætasti sigurinn á ferlinum – Myndir

Fjarðabyggð vann sinn fyrsta leik í annarri deild karla í knattspyrnu í sumar þegar liðið lagði Kára frá Akranesi 2-0 á Eskifjarðarvelli. Þjálfari liðsins segir leikmennina hafa sýnt mikla þrautseigju í mótlætinu í sumar.

„Tilfinningin er betri en eftir alla aðra leiki sem ég hef unnið. Þetta hefur verið rosalega erfitt sumar með stóru R-i. Oft höfum við verið lélegir en líka óheppnir með að missa niður forustu í uppbótartíma.

Samt hafa þessir strákar komið á æfingu eftir æfingu, glaðir, ánægðir og tekið á því. Mörg lið hefðu misst alla út í veður og vind við þær aðstæður sem við höfum verið í, en mórallinn hefur verið góður, sama hvað gengið hefur á. Ég er ánægðastur með það,“ sagði Heimir Þorsteinsson, þjálfari Fjarðabyggðar eftir leikinn í gær.

Þrír ungir í lykilhlutverkum

Tómas Atli Björgvinsson skoraði bæði mörk Fjarðabyggðar í leiknum, það fyrra á 26. mínútu en það seinna á 75. Hann fékk nokkur færi í viðbót upp úr skyndisóknum. Hann er 16 ára, uppalinn á Eskifirði en skipti nýverið yfir í FH og er í láni hjá Fjarðabyggð.

Fleiri ungir leikmenn spiluðu stórt hlutverk fyrir Fjarðabyggð í gær. Birkir Ingi Óskarsson, 17 ára, byrjaði inn á og jafnaldri hans Arnór Sölvi Harðarson spilaði seinni helming síðari hálfleiks. Arnór átti sinn þátt í að snúa gangi leiksins aftur Fjarðabyggð í vil.

Áður en hann kom inn á voru gestirnir með stjórn á leiknum og skapað sér 1-2 ágæt marktækifæri en Fjarðabyggð hélt boltanum illa og átti fjölda slakra sendinga. Ákefð Arnórs færði Fjarðabyggðarliðið framar í pressunni á mótherjana og komst hann meðal annars sjálfur inn í nokkrar sendingar Káramanna sem sköpuðu Fjarðabyggð ákjósanleg færi á skyndisóknum.

Þetta ljóta, einfalda

Annars byggði leikur Fjarðabyggðar í gær upp á löngum sendingum frá vörninni, nokkuð sem Heimir viðurkenndi fúslega að hefði verið uppleggið. „Eðlilega er liðið ekki með mikið sjálfstraust. Við höfum nokkrum sinnum fengið á okkur mörk við að spila út úr vörninni. Þess vegna var skipunin í dag að spila einfalt, fara í þetta ljóta, senda boltann fram, vinna seinni bolta eða innkast og mér fannst Káramenn ekki höndla það. Kannski hefði staða okkar verið önnur hefðum við gert þetta oftar í sumar en það er umræða sem þarf að taka síðar.“


Eftir leikinn er Fjarðabyggð komið með átta stig, fimm jafntefli og loks sigur, eftir 17 leiki. Liðið er stigi á eftir Kára en tíu stig eru frá Fjarðabyggð upp í Leikni Fáskrúðsfirði sem er næsta ofan við fallsætin. Með fimm umferðir eftir er staðan ekki glæsileg.

„Við gerum okkur grein fyrir að vonin er veik en svona leikur getur aukið sjálfstraustið. Það er búið að dæma okkur svo oft niður í sumar að maður var eiginlega farinn að trúa því en ég gefst ekki upp meðan við erum ekki fallnir á stigum. Við eigum annars erfiðan leik gegn ÍR á sunnudag og það er frekar að ég geti svarað til um stöðu okkar ef við vinnum hann.“

Fyrst og fremst ekki verið nógu góðir

Þegar horft er á Fjarðabyggðarliðið í gær blasir við að það er annars vegar skipað eldri leikmönnum frá betri árum liðsins, sem mögulega hafa lítið spilað allra síðustu ár og hins vegar mjög ungum leikmönnum eins og þeim sem nefndir voru að framar. Þetta var vitað fyrir tímabilið en Heimir segist þó engan vegin hafa verið viðbúinn erfiðleikum sumarsins.

„Spár sögðu að við yrðum í vandræðum en ég hélt við gætum verið ofar. Ég viðurkenni þó að ég er að koma aftur í þjálfun eftir nokkurra ára hlé og ég vanmat deildina. Það eru í henni lið sem eru líkamlega sterk með bakverði sem koma upp með sókninni og tvöfalda á köntunum, auk þess að hafa leikmenn sem eru fljótir að leysa úr flóknum stöðum.

Síðan lentum við í miklum útlendingakapli. Ég tek það á mig, þótt maður út í Búlgaríu eigi sökina. Við áttum aldrei að taka þessa stráka.

Þetta er líka snjóbolti. Maður tapar leik með tveimur klaufamistökum, lagar þau fyrir næsta en þá koma önnur mistök. Taktíkin hefur klikkað og við þjálfararnir leitað stanslaust að besta byrjunarliðinu. Þegar við höfum fundið það hafa menn meiðst.

Fyrst og fremst höfum við ekki verið nógu góðir, stigataflan segir það. Við höfum tapað leikjum naumt en líka verið rústað. Við höfum skorað tíu mörk, sem er helmingi of lítið. Ég get því ekki annað sagt en við verðskuldum þessa stöðu en ég hélt fyrirfram að þetta yrði ekki svona slæmt.

Ef það verður okkar hlutskipti að falla þá verður það eitt skref aftur á bak. Ég held það verði samt ekki verra fyrir okkar ungu leikmenn að spila í þriðju deildinni, hún er góður skóli, þótt það sé skemmtilegra að vera í annarri deildinni því hún er meira krefjandi.“

Í leikslok söng síðan liðið um svindlarann Steindór og strætó, eins og hefð er eftir sigurleiki. Leitun var þó að leikmönnum sem kunnu það. „Ætli þeir hafi ekki verið þrír, Víkingur (Pálmason), Hákon (Þór Sófusson) og Jóhann (Benediktsson). Þeir voru með þegar ég þjálfaði hér fyrir tíu árum.“

Fotbolti Kff Kari Agust21 0009 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0010 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0019 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0026 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0029 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0035 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0041 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0050 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0053 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0056 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0060 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0063 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0072 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0078 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0087 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0094 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0102 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0110 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0125 Web
Fotbolti Kff Kari Agust21 0128 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.