Reynslan sigldi sigrinum til Grindavíkur - Myndir

Grindavík vann Hött 94-101 eftir framlengingu í fyrsta leik Domino‘s deildar karla í gærkvöldi. Höttur var yfir lengi í leiknum en gestunum tókst að jafna leikinn undir lok venjulegs leiktíma og höfðu síðan yfirburði í framlengingu.

Grindavík var 15-17 yfir fyrsta leikhluta en Höttur náði yfirhöndinni í leiknum með 11-2 kafla um miðjan annan leikhluta sem breytti stöðunni úr 19-22 í 30-24. Hattarmenn spiluðu fína vörn á þessum kafla og yfirvegaðan sóknarleik.

Grindavíkingar virkuðu hins vegar enn í sumargírnum því sókn liðsins var stirðbusaleg auk þess sem ekki eitt einasta þriggja stiga skot liðsins fór ofan í þrátt fyrir 11 tilraunir. Þeim tókst hins vegar að laga stöðuna í 40-37 fyrir hálfleik.

Um miðjan þriðja leikhluta var Höttur aftur kominn í sjö stiga forskot, 55-48. Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, tók þá leikhlé og tókst að kveikja í sínu liði sem jafnaði í 59-59. Hetti tókst þó að rífa sig upp aftur og var 64-61 yfir þegar leikhlutanum lauk.

Yfir þar til þrjár mínútur voru eftir

Höttur hélt því forskoti þar til rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum þegar Grindavíkingar stálu boltanum og Björgvin Hafþór Ríkarðsson óð upp völlinn, tróð og jafnaði í 74-74. Hattarmenn svöruðu með fjórum stigum og voru 78-74 yfir þegar Grindavík tók leikhlé með 2:52 mínútur eftir.

Aftur náði Daníel Guðni að kveikja í sínu liði með leikhléi og næstu sex stig urðu Grindvíkinga sem voru þá yfir, 78-80 þegar 19 sekúndur voru eftir. Áköf vörn gestanna virtist skelfa heimamenn, sem fóru að skjóta úr verri færum.

Dino Stipcic tókst að jafna leikinn í 80-80 þegar hann hirti frákast þegar þriggja stiga skot Shavar Newark kastaðist af hringnum. Grindvíkingar fengu sókn þegar þrjár sekúndur voru eftir en Sigurður Gunnar Þorsteinsson spilaði frábæra vörn á Eric Wise og vann innkast. Hattarmenn fengu því eitt lokaskot þegar 0,3 sekúndur voru eftir en skotfærið var erfitt og tilraunin aldrei nálægt körfunni.

Grindvíkingar sterkari í framlengingunni

Því þurfti að framlengja og þar voru Grindvíkingar töluvert betri. Eistneski miðherjinn, Joonas Järveläinen, sem sýndi ágætar rispur í sókninni í sínum fyrsta leik fyrir Grindavík, skoraði fyrstu körfuna en síðan tók fyrirliðinn Ólafur Ólafsson sig til, setti niður þriggja stiga skot og fylgdi því eftir með sniðskoti. Eftir tveggja mínútna leik í framlengingunni var Grindavík komin í 82-89 og það forskot lét liðið aldrei af hendi.

Hjá Hetti var Shavar Newark stigahæstur með 24 stig en Sigurður Gunnar skoraði 21 auk þess að taka 11 fráköst. Dagur Kár Jónsson skoraði 25 stig fyrir Grindavík, Eric Weis 21 og Joonas Järveläinen 20.

Grindvíkingar lánsamir

„Ég finn raunverulega til með Hetti að ná ekki í stig hér sem gerir mig enn ánægðari með að hafa náð í tvö mikilvæg stig,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur eftir leikinn.

„Mér finnst við lánsamir að fara með tvö stig út úr leiknum. Mín upplifun var sú að Höttur væri betri, liðið var þétt, léttleikandi og spilaði vel saman. Við náðum aldrei flugi fyrr en í framlengingunni. Þangað til var Höttur alltaf skrefi á undan sem gerði þetta að mjög krefjandi verkefni.“

Vantaði kjark til að klára leikinn

„Okkur vantaði kjark til að fara og taka þennan sigur. Það var það eina. Það var margt gott í okkar leik en ég er hundóánægður með að við höfum hent sigrinum frá okkur. Grindavík spilaði vel síðustu 2,5 mínúturnar og kláruðu hlutina betur þegar komið var í alvöru leik,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

„Við byrjuðum framlenginguna illa, Grindavík skoraði auðvelda körfu og svo þriggja stiga úr horninu. Þá var sem loftið væri aðeins úr okkur. Við héldum samt áfram út í gegn og reyndum hvað við gátum en þeir voru sterkari.“

En það að hafa verið yfir lungann úr leiknum bendir til þess að Hattarliðið hafi spilað þokkalegan leik. „Ég er ánægður með margt. Eric Weis var það eina sem við þekktum ekki mjög vel í þeirra leik og hann gerði okkur erfitt fyrir. Bæði í fyrsta leikhluta og þriðja komu kaflar þar sem við hittum illa en það gerist. Þegar við spiluðum okkar sóknarleik eins og við lögðum upp með þá tókst okkur vel að opna skotfæri.“

Myndir: Hilmar Sigurbjörnsson

A1C1A4530 Web
A1C1A4548 Web
A1C1A4624 Web
A1C1A4737 Web
A1C1A4799 Web
A1C1A4804 Web
B1C1A4921 Web
B1C1A4944 Web
B1C1A5076 Web
B1C1A5093 Web
B1C1A5097 Web
B1C1A5134 Web
C1C1A5211 Web
C1C1A5295 Web
C1C1A5373 Web
C1C1A5387 Web
C1C1A5434 Web
C1C1A5475 Web
C1C1A5497 Web
C1C1A5536 Web
C1C1A5670 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.