Ómar tók á móti Hreini í lögreglufylgd

„Þetta er auðvitað mjög mikill heiður fyrir mig og æðsta viðurkenning sem hægt er að veita í tenglsum við íþróttir,” segir Hreinn Halldórsson, kúluvarpari á Egilsstöðum, sem tekinn var inn í Heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands við val á íþróttamanni ársins 2018 þann 29. desember síðastliðinn. Hreinn er átjándi einstaklingurinn sem Íþróttasamband Íslands útnefnir í höllina.



Sjálfur hefur Hreinn þrisvar sinnum hlotið nafnbótina íþróttamaður ársins, fyrst árið 1976 þegar hann meðal annars bætti hann Íslandsmetið í kúluvarpi og keppti á Ólympíuleikunum í Montreal. 

Hreinn varð fyrstur Íslendinga til þess að vinna til verðlauna á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum innahúss, en það gerði hann í mars árið 1977 í San Sebastian á Spáni með því að kasta kúlunni 20,59 metra. Hreinn varð um leið fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í frjálsíþróttum í 27 ár. Sama ár bætti Hreinn Íslandsmetið í kúluvarpi þegar hann kastaði 21,09 metra á móti í Stokkhólmi, met sem stóð í þréttán ár. Það ár var hann einnig valinn Íþróttamaður ársins og svo í þriðja skiptið árið 1979. Það ár átti hann sjötta besta afrek í heiminum þegar hann varpaði kúlunni 20,69 metra. Á Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980 hafnaði Hreinn í 10. sæti. Hreinn lagði kúluna á hilluna árið 1982.

Strandamaðurinn sterki
Hreinn er ættaður frá Ströndum og hefur verið þekktur undir viðurnefninu, „Strandamaðurinn sterki“ en það var Ómar Ragnarsson sem gaf honum það. 

„Þetta hefst með því að Ómar var íþróttafréttaritari fyrir RÚV og þá var verið að keppa á Melavellinum, áður en íþróttakeppnir voru alfarið fluttar á Laugardalsvöllinn. Á einhverju vormótinu kom ég eitthvað á óvart og þetta fannst Ómari liggja beint við, að ég væri Strandamaður og þótti nokkuð öflugur. Ómar er mikið í kveðskap og þetta rímar vel og gott að muna það. Þetta festist svona rækilega við mig, allir sem kannast við mig þekkja mig undir þessu nafni, þó svo þeir muni kannski ekki hvað ég heiti, þá vita þeir um Strandamanninn sterka.”

Ómar vann lögregluna á sitt band
Hreinn á margar góðar sögur af kynnum þeirra Ómars og laumar einni að Austurfrétt sem hann hefur ekki sagt frá áður. 

„Þegar ég kom utan frá því að vinna á Evrópumótinu var Ómar enn fréttaritari og ætlaði að taka á móti mér í Keflavík fyrir sjónvarpið. Hann var orðinn allt of seinn eins og oft áður og keyrði langt yfir hámarkshraða og var stöðvaður af lögreglunni. Hann sagði þeim erindið sem varð til þess að þeir óku með bláu ljósin á undan honum og hann hélt áfram á sínum hraða svo hann næði á réttum tíma.”

Ljósmyndin með fréttinni er tekin þegar Hreinn var sæmdur heiðurskrossi Frjálsíþróttasambandsins við opnun sýningar um ferilinn í íþróttahúsinu á Egilsstöðum í júní 2017.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.