Myndasyrpa: Austfirsku liðin deila efsta sætinu í annarri deild

hottur_hamar_02062011_0031_web.jpgHöttur og Fjarðabyggð unnu andstæðinga sína í annarri deild karla í dag bæði með fjögurra marka mun. Höttur er í efsta sæti deildarinnar því liðið hefur betra markahlutfall en Fjarðabyggð.

 

Höttur hafði töglin og haldin í 5-1 sigri á Hamri á Fellavelli. Elvar Ægisson kom Hetti yfir á þrettándu mínútu með skoti úr teignum eftir hornspyrnu. Elvar fékk boltann frá Ragnari Péturssyni, snéri með varnarmann í bakinu og skaut milli fóta hans þannig markvörðurinn sá boltann ekki fyrr en of seint.

Annað markið kom rúmu kortéri síðar þegar varnarmaður Hamars skallaði hornspyrnu Stefáns Þórs Eyjólfssonar í eigið net.

Hamarsmenn, sem vart fóru út af eigin vallarhelmingi í fyrri hálfleik, hröktu Hattarmenn inn á sitt eigið svæði í upphafi seinni hálfleiks. Það skilaði árangri strax á 51. mínútu þegar Haraldur Árni Hróðmarsson skoraði með góðu skoti utan vítateigs niður í hornið fjær.

hottur_hamar_02062011_0091_web.jpgRothögg í fjórða markinu

Hattarmenn voru samt fljótir að jafna. Eftir hornspyrnu á 59. mínútu skallaði Garðar Már Grétarsson yfir línuna. Varnarmaðurinn Arnþór Ingi Kristinsson, sem nokkrum sekúndum fyrr hafði fengið gult spjald ásamt Sigurði Donys Sigurðssyni, reyndi að bjarga boltanum frá með hendi en aðstoðardómarinn dæmdi að boltinn hefði farið inn áður. Það reyndar skipti ekki máli því Hattarmenn hirtu boltann hvort sem er eftir markmannstilburði Arnþórs og sendu boltann í netið.

Arnþór Ingi kom aftur við sögu í fjórða marki Hattar sem Stefán Þór skoraði nokkrum mínútum síðar. Elvar Þór tók við boltanum eftir langa sendingu fram, lék á varnarmann Hamars og sendi á Stefán sem kom inn í teiginn vinstra megin og skoraði með skoti niður í hornið. Hamarsmenn sögðu Elvar hafa brotið að sér í aðdraganda marksins með að bakka undir varnarmann þegar hann tók á móti sendingunni. Harðast fram gekk Arnþór Ingi sem fór strax að Sigurði Óla Þorleifssyni, dómara leiksins, eftir markið. Þar fékk hann ekkert annað en undireins gult spjald og þar með rautt. Nokkurn tíma tók að fá hann til að yfirgefa völlinn.

Úrslitin voru þar með ráðin en Elvar skoraði fimmta markið skömmu fyrir leikslok þegar hann fékk boltann hægra megin í teignum og negldi honum í stöngina fjær og inn.

hottur_hamar_02062011_0119_web.jpg„Hrikalega margt sem við getum bætt“

„Þetta var góður sigur en það er enn hrikalega margt sem við getum bætt,“ sagði Eysteinn Hauksson, þjálfari Hattar, í samtali við Agl.is eftir leikinn. „Leikurinn stefndi ekki í 5-1 þegar þeir minnkuðu muninn í byrjun seinni hálfleiks en við nýttum færin okkar vel eftir það og eftir að þeir voru orðnir manni færri var þetta ekki spurning.“

Eysteinn getur ekki kvartað undan byrjuninni í mótinu, liðið hefur unnið fyrstu þrjá deildarleikina undir hans stjórn. „Þetta er eins og ég vil hafa þetta. Ég vona bara að þetta nýtist okkur áfram.“

Eysteinn notaði í dag sinn þriðja hægri bakvörð og gerði nokkrar aðrar breytingar þar sem reynsluboltar eins og Þórarinn Máni Borgþórsson og Vilmar Freyr Sævarsson voru ekki í leikmannahópnum.

„Við erum með stóran hóp og um leið og menn detta út verður erfitt að komast aftur í liðið. Ég kem til með að nota þennan stóra hóp. Ég verð ekki alltaf með sama byrjunarliðið í sumar og ég treysti á að þeir sem eru fyrir utan leggi sig fram og verði klárir þegar kallið kemur.“

Fjarðabyggð burstaði Reyni

Fjarðabyggð er sömuleiðis með byr í seglin eftir frábæran 0-4 útisigur á Reyni í Sandgerði. Sigurjón Egilsson skoraði fyrsta markið á níundu mínútu þegar hann notfærði sér misskilning í vörn Sandgerðina. Hann var síðan aftur á ferðinni þremur mínútum síðar.

Eftir þetta var sigurinn aldrei í hættu. Mirnes Smajlovic innsiglaði sigurinn með tveimur mörkum upp úr miðjum seinni hálfleik, sem eru hans fyrstu fyrir félagið.

Fjarðabyggð og Höttur eru einu liðin í annarri deild sem hafa náð níu stigum og eru því jöfn í efsta sæti. Höttur hefur hins vegar leikið einum leik færra og er með betri markatölu.

Einherji tapaði 3-0 fyrir Magna á Grenivík.

hottur_hamar_02062011_0026_web.jpghottur_hamar_02062011_0028_web.jpghottur_hamar_02062011_0033_web.jpghottur_hamar_02062011_0043_web.jpghottur_hamar_02062011_0045_web.jpghottur_hamar_02062011_0044_web.jpghottur_hamar_02062011_0047_web.jpghottur_hamar_02062011_0052_web.jpghottur_hamar_02062011_0062_web.jpghottur_hamar_02062011_0067_web.jpghottur_hamar_02062011_0071_web.jpghottur_hamar_02062011_0073_web.jpghottur_hamar_02062011_0074_web.jpghottur_hamar_02062011_0077_web.jpghottur_hamar_02062011_0086_web.jpghottur_hamar_02062011_0094_web.jpghottur_hamar_02062011_0097_web.jpghottur_hamar_02062011_0107_web.jpghottur_hamar_02062011_0112_web.jpghottur_hamar_02062011_0114_web.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.