Orkumálinn 2024

„Minntum helst á bobsleðaliðið frá Jamaíku“

Lið Sparisjóðs Austfjarða náði þeim vafasama áfanga að verða fyrsta liðið til að falla úr leik á Landsmóti UMFÍ 50 ára og eldri sem haldið er í Neskaupstað. Liðið er ekki af baki dottið og sér fram á glæsta sigra síðar meir í boccia.

„Ég vissi fyrst af því fyrir sex dögum að það væri til íþróttagrein sem heitir boccia,“ segir Guðjón Bj. Magnússon, einn liðsmanna.

Fyrirliði liðsins er Magnús Jóhannsson en upphaf liðsins má rekja til þess að hann fór á dómaranámskeið í greininni sem haldið var í aðdraganda mótsins. „Hann fór á námskeiðið en kom þaðan með þá hugmynd að við settum saman lið.“

Æfingarnar fóru fram í garðinum hjá Magnúsi en þeir Guðjón hafa búið hlið við hlið í Neskaupstað i áratugi. Í liðinu voru einnig Jónína Sigurðardóttir, kona Magnúsar og Stefán P. Pétursson, tengdasonur Guðjóns.

Liðið náði æfingaleik við Ísfirðinga sem æfa reglulega boccia og gekk nokkuð vel. Á brattan var hins vegar að sækja þegar alvaran tók við í morgun þar sem liðið tapaði öllum leikjum sínum í riðlakeppninni og féll þar með úr leik. „Við minnum svolítið á bobsleðaliðið frá Jamaíku sem fór á Ólympíuleikana,“ segir Guðjón.

Þau eru hins vegar ekki af baki dottin. „Þetta var mjög gaman og við hefðum alveg verið til í að spila fleiri leiki. Nú verðum við bara að æfa og mæta á næsta mót sem verður í Borgarnesi að ári.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.