Metfjöldi í Stubbaskólanum

„Það eru ívið fleiri nemendur í skólanum í ár en vanalega, en það eru rúmlega 40 skráðir. Flestir þeirra eru óvanir, en segja má að það sé lúxusvandamál sem gaman er að takast á við,” segir Jóhann Tryggvason, annar stjórnandi Stubbaskólans, sem er skíðaskóli fyrir yngstu börnin sem starfræktur er á skíðasvæðinu í Oddskarði.



Eins og kom fram í frétt í gær hefur Jóhann verið viðloðandi skíðaiðkun á Norðfirði síðastliðin 40 ár. „Það er nú konan mín, Jenný Sigrún Jørgensen sem stýrir skólanum, en Stefán sonur okkar stofnaði hann fyrir einum sjö árum þegar hann var hér skíðakennari. Hann skildi skólann svo eftir í höndum móður sinnar þegar hann flutti og ég fæ að vera með þegar vinnan mín leyfir,” segir Jóhann.

 Ótrúlega fljót að ná færni

Jóhann segir skólann taka við börnum allt niður að tveggja ára aldri og segir nemendur yfirleitt ótrúlega fljóta að ná færni. „Það munar vissulega heilmiklu á barni sem verður tveggja ára snemma árs en því sem verður það seinni hluta árs. Þau eru einnig bara með mismunandi hreyfifærni að upplagi og svo eru sum háðari foreldrum sínum en önnur. Stundum, þegar við erum búin að koma þeim aðeins af stað ráðleggjum við foreldrum að fara bara niður í skála og fá sér kaffi, en börnin eru oftast mun samvinnuþýðari þegar foreldrarnir eru horfin úr augsýn. Einnig er sniðugt að foreldrar hreinlega víxli börnum meðan þau eru að ná tökum, því þau eru allt öðruvísi gangvart þeim sem þau þekkja ekki en foreldrum sínum.

Þau eru alveg ótrúlega fljót að ná þessu, en ég myndi segja að við værum búin að losa okkur við meðal fjögurra ára gamalt barn úr fanginu eftir svona þrjá tíma. Við byrjum ekki á að nota alla lyftuna, heldur merkjum stað það sem þau fara úr, en það er svo lítill halli neðst í henni þannig að þau eru fljót að ná því. Þau byrja á því að renna sér lítill hring aftur og aftur, en það tekur oft aðeins einn dag að losna við streituna sem fylgir lyftunni og þá geta þau farið að einbeita sér að því að renna sér.”

Aðspurður að því hvort hann átti sig á því hvað skýrir fjölgun í skólanum í ár segir Jóhann. „Nei í rauninni ekki. Aðal fjölgunin kemur frá Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði meðan það er örlítill samdráttur hérna á Norðfirði eftir að göngin komu. Það virðist hins vegar vera vakning á Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði.”


Leikskólabörn prófa gönguskíði
Stubbaskólinn er með annað skemmtilegt verkefni í gangi þessa dagana. „Við eigum átta pör af gönguskíðum og höfum verið að leyfa elstu börnunum í leikskólanum að prófa. Þeim þykir það alveg æðislegt og eru alveg tilbúin að stökkva út á skíðin um leið og þau mæta í skólann.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.