Orkumálinn 2024

„Margur er knár þótt hann sé smár“

Sannkölluð glímuveisla var á Reyðarfirði fyrir viku þegar fram fór bæði fyrsta umferð í meistaramótaröð Glímusambands Íslands, sem og Íslandsmeistaramót 15 ára og yngri. Ágæt þátttaka var í báðum flokkum og gekk mótið vel í alla staði.


Svana Hrönn Jóhannsdóttir, formaður Glímusambands Íslands, var mótsstjóri.

„Barnamótin hafa yfirleitt verið haldin á Suðurlandi, en í ár vildum við verðlauna öflugt starf á Reyðarfirði og létta undir með þeim iðkendum sem þar eru að þurfa ekki að keyra þessa löngu vegalengd tvisvar í röð, en haustvertíðin hófst með ungmennabúðum í Dalabyggð og þangað er ansi langt að fara fyrir krakkana að austan. Svo er grunnskólamótið á Hvolsvelli í mars, þannig að það er frábært að geta dreift þessu aðeins.“

Svana Hrönn segir öflugt glímustarf á Reyðarfirði vekja mikla athygli á landsvísu og vera mikil lyftistöng fyrir íþróttina. Hún segir glímu vera afar góða íþrótt fyrir börn og ungmenni. „Glíma snýst mikið um samhæfingu, í bland við fimi og styrk. Máltækið „margur er knár þótt hann sé smár“ hefur einnig margsannað sig innan íþróttarinnar, en þótt krakkarnir séu margir hverjir litlir og létir geta þeir náð langt og eiga fullt erindi í stærri krakka sem þeir eru að keppa við. Þetta hefur maður margsinnis séð og þar á meðal um helgina á Reyðarfirði,“ segir Svana Hrönn.

Hér má sjá öll úrslit mótsins. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.