Leiknismenn að heiman í tæpa fjóra sólarhringa

Knattspyrnulið Leiknis Fáskrúðsfirði gerði víðreist í síðustu viku. Félagið mun vera það lið sem ferðast mest vegna Íslandsmótsins í knattspyrnu í sumar og ferðirnar röðuðust ekki vel upp þegar finna þurfti nýja leikdaga fyrir leiki sem frestað var út af Covid-19 faraldrinum.

Greint er frá ferðalögum Leiknis í síðustu viku í samantekt á heimasíðu félagsins en það spilaði í síðustu viku þrjá útileiki á átta dögum. Liðsmenn voru 3,5 sólarhring á heiman á þessum tíma.

Törnin byrjaði laugardaginn 12. september með útileik gegn Leikni Reykjavík. Fáskrúðsfjarðarliðið keypti seinkunn á kvöldfluginu úr Reykjavík. Þannig gat liðið farið fram og til baka á einum degi og sloppið við að gista. Ella hefði það verið meira en hálfan sólarhring í viðbót á ferðinni.

Veðrið breytir ferðaáætlunum

Næst var komið að ferð til Vestmanneyja. Sá leikur átti upphaflega að fara fram á miðvikudegi en var flýtt um sólarhring vegna veðurspár. Leiknisliðið fór af stað keyrandi á mánudegi, gisti eina nótt á Suðurlandi, sigldi til Eyja, spilaði leikinn, aftur í land og keyrt austur þangað sem komið var um klukkan tvö að nóttu. Mun þetta hafa verið í fyrsta skipti sem liðin tvö mættust í keppnisleik.

Törninni lauk síðan með leik gegn Vestra á Ísafirði á sunnudag. Upphaflega var ferðaáætlun Fáskrúðsfirðinga að keyra á Akureyri og taka þaðan leiguflug á Ísafirði, sem hefði tekið 17 tíma, en leikmenn þess sem dvelja í Reykjavík ætluðu að keyra vestur.

Fyrir helgina var hins vegar ljóst að veðrið yrði vont um helgina og því hæpið með allt flug á Ísafjörð. Leikmennirnir að austan flugu því til Reykjavíkur að morgni laugardags og síðan keyrði liðið allt liðið vestur, gisti þar um nóttina, spilaði leikinn klukkan 11 að morgni og keyrði síðan austur. Þangað var komið um miðnætti og þá lokið 87 tíma ferðalögum á átta dögum.

Ómögulegt að skafa vatnið af vellinum áður en það fellur á hann

Leiksins á Ísafirði verður þó einkum minnst fyrir vallaraðstæður sem pistlahöfundur Leiknis lýsir sem „óboðlegum“ en ekki hafi verið hægt annað en spila leikinn enda Leiknisliðið búið að eyða tveimur dögum í ferðalög og enginn annar leikdagur í augsýn.

„Völlurinn á floti eftir margra daga rigningar og sagði lítið þó Vestramenn ynnu langt fram á kvöld fyrir leik og byrjuðu eldsnemma á leikdegi að skafa af vellinum vatn. Meðal annars vegna þess að ómögulegt er að skafa vatn af velli fyrir en það er fallið af himni ofan, en algjört úrhelli var þegar á leikinn leið. Hitastigið var 0° og allir þeirri stund fegnastir þegar góður dómari leiksins blés lokaflautið.

Það sem úrslitum réð í leiknum var vestanmenn mættu betur skóaðir til leiks. Sjóaðir mýrarboltamenn á um tveggja tommu skrúftökkum var það sem gilti á Torfnespolli þennan haustdag.“

Tveir heimaleikir framundan

Leiknir náði einu stigi út úr þessum þremur leikjum, markalausu jafntefli í Vestmannaeyjum. Það er ekki mikið en gagnlegt í fallbarátunni en liðið er í næst neðsta sæti með 12 stig, jafnt Þrótti Reykjavík en með verra markahlutfall.

Leiknisliðið fær að vera heima í næstu viku. Á laugardag tekur það á móti Víkingi Ólafsvík og síðan Leikni Reykjavík á þriðjudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.