Orkumálinn 2024

Leiknir tapaði en styrkir liðið

Gengi liðanna að austan á Íslandsmótinu í knattspyrnu var ærið misjafnt um síðustu helgi. Fjarðabyggðarmenn unnu þó góðan sigur í 2. deild karla. Leiknismenn leita enn að sínum fyrstu stigum í Lengjudeildinni en hafa verið að styrkja sig að undanförnu.

Leiknir tók á móti Þór í Fjarðabyggðarhöllinni á sunnudag og máttu þola 2-3 tap í hörkuleik. Heimamenn komust yfir strax á fyrstu mínútu með marki frá Povilas Krasnovskis en Þórsarar svöruðu af hörku og voru komnir 2-1 yfir eftir 10 mínútna leik. Arkadiusz Grzelak jafnað metin úr vítaspyrnu um miðjan síðari hálfleik en Þór komst yfir aðeins tveimur mínútum síðar og þar við sat.

Leiknismenn eru því án stiga eftir tvær umferðir líkt og þrjú önnur lið. Þeir hafa verið að þétta raðirnar undanfarna daga og bætt þremur leikmönnum við hóp sinn. Það eru þeir David Fernandez Hidalgo, 27 ára sóknarmaður sem kemur frá Spáni, Valdimar Brimir Hilmarsson 18 ára miðjumaður kom til þeirra frá Hetti og að síðustu kom Kristófer Páll Viðarsson aftur heim á Fáskrúðsfjörð að láni frá Keflavík. Kristófer Páll er 23 ára en þrátt fyrir ungan aldur á hann að baki 105 leiki á Íslandsmóti og bikarkeppni og hefur skorað í þeim 37 mörk.

Góður sigur hjá Fjarðabyggð

Fjarðabyggð gerði sér lítið fyrir og rúllaði yfir ÍR 4-1 í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag. Öll mörk heimamanna voru skoruð í fyrri hálfleik. Filip Marcin Sakaluk skoraði 2 mörk og Guðjón Máni Magnússon og Rubén Lozano Ibancos skoruðu hin mörkin, en sá fyrrnefndi kom inn á fyrir þann síðarnefnda á 17. mínútu leiksins. Fjarðabyggð er í fjórða sæti deildarinnar eftir tvær umferðir með eitt sigur og eitt tap.

Stúlkurnar í Fjarðabyggð/Hetti/Leikni gerðu góða ferð suður með sjó, til Grindavíkur, á laugardag þar sem þær höfðu 2-3 sigur á heimastúlkum. Hin 16 ára Freyja Karín Þorvarðardóttir hélt uppteknum hætti frá fyrstu umferðinni, skoraði 2 mörk og er þar með markahæst í deildinni með 5 mörk í 2 leikjum. Elísabet Arna Gunnlaugsdóttir skoraði þriðja mark austanstúlkna sem komust þremur mörkum yfir áður en Grindvíkingar minnkuðu muninn undir lok leiksins. Þrjú lið eru sem stendur efst á 2. deild kvenna með 6 stig, HK, Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir og Hamrarnir frá Akureyri.

Vopnfirðingar lágu illa

Einherji gerði miður góða ferð í höfuðborgina en steinlágu gegn Elliða á Fylkisvelli á laugardag, 6-1. Recoe Martin gerði mark Vopnfirðinga sem annars sáu aldrei til sólar í leiknum. Höttur/Huginn tók á móti KV á Vilhjálmsvelli og þurftu að sætta sig við 0-1 ósigur í tilþrifalitlum leik. Mark gestanna kom úr vítaspyrnu eftir hálftíma leik. Höttur/Huginn situr í 9. sæti 3. deildar karla með 1 stig en Einherji í því 11. án stiga.

Á föstudag halda Leiknismenn norður á Grenivík og leika þar við Magna í Lengjudeildinni. Á laugar dag tekur Fjarðabyggð á móti Víði Garði í 2. deild karla á meðan Einherji tekur á móti Reyni Sandgerði á Vopnafirði og Höttur/Huginn sækir Augnablik heim í Kópavoginn í 3. deild karla. Á sunnudag verður síðan toppslagur í 2. deild kvenna á Vilhjálmsvelli þegar Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tekur á móti HK.

Mynd: Markahrókurinn Kristófer Páll Viðarsson (t.v.) er aftur kominn í raðir Leiknismanna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.