Leiknir skoraði sex mörk gegn Tindastóli

Leiknir vann góðan 6-0 sigur á Tindastóli þegar heil umferð var leikinn í annarri deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Á Eskifjarðarvelli ringdi bæði vatni og mörkum þegar Fjarðabyggð og Þróttur Vogum gerðu 4-4 jafntefli.
Leiknir skoraði sitt fyrsta mark strax eftir 40 sekúndur, þar var á ferðinni Izaro Sanchez og Sæþór Ívan Viðarsson bætti öðru marki við fjórum mínútum seinna.

Leikurinn var aldrei spennandi, Leiknir hafði svo að segja algjöra yfirburði. Liðið spilaði góða pressuvörn sem gestirnir frá Sauðárkróki voru alltaf í vandræðum með. Þeir fengu reyndar færi til að skora, besta færið var skalli Kyen Nicholas fyrir opnu marki eftir að boltinn hrökk til hans af slánni en hann stýrði boltanum á merkilegan hátt framhjá.

Nicholas fékk eitt eða tvö færi í viðbót. Hann var varnarmönnum Leiknis til vandræða, nautsterkur og fljótur, en ekki nógu nýtinn á færin. Færi Leiknis voru reyndar fleiri og betri. Daniel Blanco skoraði tvö mörk, Myklos Krasnovskis eitt og Unnar Ari Hansson það síðasta gegn óskipulagðri vörn gestanna.

Markatalan getur skipt máli í lokin

„Leikurinn spilaðist eins og við lögðum upp. Við ætluðum okkur þrjú stig, mættum ákveðnir til leiks og þau skiluðu sér,“ sagði Arek Grzelak, fyrirliði Leiknis.

Liðið er á toppi deildarinnar, stigi á undan Vestra en með nokkru betra markahlutfall. Leiknir er síðan fimm stigum á undan Selfossi og Víði í þriðja og fjórða sætinu. Staðan er jöfn og þá getur markatalan skipt máli í lokin. Þess vegna skipti Leikni máli að vinna stórt.

„Hún telur alltaf á endanum. Staðan er mjög jöfn þannig að öll mörk telja. Við vildum líka halda hreinu og gerðum það. Pressan hjá okkur var frábær, allir unnu sem einn,“ segir Arek.

Liðið á erfiðan leik fyrir höndum gegn Selfossi á útivelli um helgina. Arek verður þar í banni eftir að hafa fengið sjö gul spjöld á leiktíðinni. „Það verður mjög erfiður leikur. Þótt ég sé í banni vona ég að strákarnir komi sterkir og vel gíraðir í leikinn. Það kemur ekkert annað til greina.“

Leiknir verður einnig án aðalmarkvarðarins Bergsteins Magnússonar sem er í tveggja leikja banni og þá var varamarkvörðurinn Bergsveinn Ás Hafliðason meiddur í gær. Björgvin Snær Ólafsson var í þeirra stað með gamla brýnið Óðinn Ómarsson á bekknum.

„Eins og sást í dag þá erum við með alvöru markmenn sem geta leyst málin. Þótt einn detti út kemur annar í þeirra stað. Eins og sást var þessi í dag hrikalega flottur og hélt hreinu,“ sagði Arek.

Náðu jafntefli úr vonlausri stöðu

Á sama tíma tók Fjarðabyggð á móti Þrótti Vogum á Eskifjarðarvelli. Ausandi rigning buldi annað slagið á leikmönnum og auðveldaði þeim ekki leikinn.

Eftir að staðan var markalaus í hálfeik opnuðust markagáttirnar. Guðjón Máni Magnússon kom Fjarðabyggð yfir á 49 mínútu en Gilles Mbang Ondo jafnaði fyrir gestina á 56. mínútu. Tveimur mínútum síðar komust heimamenn yfir þegar Nikola Stojanovic skoraði úr víti.

Sú forusta entist ekki lengi. Ondo jafnaði úr víti á 66. mínútu og strax í næstu sókn komust gestirnir yfir þegar Ruben Pastor varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Þeir komust síðan í 2-4 með marki Lassana Drama á 74. mínútu.

Í flestum leikjum hefðu úrslitin verið ráðin á þessum tímapunkti en svo var ekki. Jose Romero minnkaði muninn á lokamínútu venjulegs leiktíma og Pastor bætti svo fyrir sjálfsmarkið þegar hann jafnaði leikinn er komið var fram á fimmtu mínútu uppbótartíma. Fjarðabyggð er eftir jafnteflið í áttunda sæti deildarinnar, sem er mjög jöfn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.