Leiknir aftur á toppinn eftir sigur á ÍR

Leiknir Fáskrúðsfirði komst aftur í efsta sætið í annarri deild karla eftir 3-1 sigur á ÍR í Fjarðabyggðarhöllinni í gær. Staðan í hálfleik var jöfn eftir eina brjálaða mínútu.

Leiknismenn urðu fyrri til að skora, Izaro Sanchez ýtti boltanum í netið eftir fyrirgjöf frá hægri á 16. mínútu. ÍR-ingar tóku miðju og skoruðu úr þeirri sókn, þar var Ágúst Freyr Hallsson á ferðinni.

ÍR-ingar áttu síðasta kortérið í fyrri hálfleik. Þeir náðu hins vegar ekki að koma krafti í skot sín auk þess sem Bergsteinn Magnússon var vel staðsettur í marki Leiknis þegar á þurfti að halda. Á 31. mínútu varði hann fyrst aukaspyrnu í horn og svo skot úr góðu færi eftir hornspyrnuna.

Lítið var að gerast í leiknum fyrstu tuttugu mínúturnar í seinni hálfleik þar til Leiknismenn fengu hornspyrnu eftir ágæta sókn. Povilas Krasnovskis átti frábært hlaup á nærstöng og skallaði boltann í hornið fjær.

Povilas átti flottan leik í gær. Fyrir utan markið var hann í því að deila boltanum fram af miðjunni. Slík stungusending skilaði þriðja marki Leiknis og öðru marki Sanchez þegar hann slapp í gegnum vörn ÍR.

Leiknir fékk tvö ágætis tækifæri til að skora fleiri mörk, en þeir Daniel Blanco og Hlynur Bjarnason náðu ekki krafti í marktilraunir sínar.

Jákvætt eftir þrjá dapra leiki

Fyrir leikinn í gær hafði Leiknir tapað tveimur af síðustu þremur leikjum og gert eitt jafntefli, eftir að hafa spilað fyrstu níu leikina án ósigurs. Brynjar Skúlason, þjálfari Leiknis, var ánægður með að komast aftur á rétta braut í gær.

„Þetta var gríðarlega gott eftir dapurt gengi. Það er gaman að ná úrslitum og mér er slátt sama hvernig við náum þeim. Við spiluðum hrikalega illa í síðasta leik, þar sem við vorum án fjögurra byrjunarliðsmanna og það reyndist of mikið. Leikmenn mínir mættu með betra hugarfar í dag.“

Þótt mörkin í leiknum hafi orðið fjögur er vart hægt að segja að leikurinn hafi verið mjög opinn, þótt hann hafi opnast þegar ÍR færði lið sitt framar í von um að jafna öðru sinni. „ÍR er með flott lið og framherjinn þeirra er mjög góður. Mér fannst við tvisvar vera dæmdir ranglega rangstæðir í seinni hálfleik þegar við vorum að sleppa í gegn þannig ég hugsa að þegar horft er yfir leikinn séu úrslitin sanngjörn.“

Brynjar var ekki ánægður með að hans lið fékk á sig jöfnunarmark strax úr fyrstu sókn eftir að hafa komist yfir í fyrri hálfleiknum. „Þetta var einbeitingarleysi. Við fórum í pressu sem við höfum æft en kláruðum ekki nógu vel. Miðvörðurinn minn gat vel hreinsað boltann í burtu áður en framherjinn náði honum.“

Með sigrinum er Leiknir kominn í efsta sætið til morguns. Selfoss getur komist á toppinn en á erfiðan útileik gegn Vestra sem er í þriðja sætinu. „Við ætluðum að vera á toppnum og berjast um að fara upp þótt knattspyrnuspekingar landsins skíti okkur út hvað eftir annað þegar þeir ræða þessa deild.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.