„Við þurfum bara að vinna einn leik“

Á laugardaginn var komst Leiknir á Fáskrúðsfirði upp í fyrsta sæti annarar deildar með sigri á Vestra. Þá er ein umferð eftir í deildinni þar sem Leiknir getur tryggt sér deildarmeistaratitil í leik við Fjarðabyggð.

Leiknir sigraði vestra með nokkrum yfirburðum, 4-0,  í Fjarðabyggðarhöllinni um helgina. Mörk Leiknis skoruðu Mykolas Krasnovskis og Izaro Abella Sanchez sem var með þrennu.

Brynjar Skúlason þjálfari Leiknis segir sigurinn aldrei hafa verið í hættu. „Nei, ekki eftir að við skoruðum fyrsta markið, þá var þetta eiginlega bara búið. Mér fannst við hafa algjöra yfirburði í leiknum, við fengum fullt af færum og þeir eitt held ég. Þetta stefndi alltaf í það að við myndum hafa þetta.“

Toppbaráttan er hörð í deildinni þar sem eitt stig skilur að efstu liðin. Leiknir situr í efsta sæti með 43 stig, Vestri í öðru með 42 stig og Selfoss í þriðja með 41 stig. Tvö lið komast upp um deild og munu spila í Inkasso deildinni að ári. „Staðan er ágæt núna. Við þurfum bara að vinna einn leik, þá erum við komnir upp um deild og erum deildarmeistarar,“ segir Brynjar.

Leiknir getur tryggt sér deildarmeistaratitil og sæti í næstefstu deild með sigri á Fjarðabyggð í nágrannaslag á Eskifjarðarvelli komandi helgi. Ef Leikir tapar á Eskifirði en Vestri og Selfoss vinna sína leiki sitja Leiknismenn þó eftir í annari deildinni.

Brynjar segist bjartsýnn fyrir leiknum um helgina. „Já maður verður að vera það, þetta verður samt erfitt. Við eigum mjög góða möguleika í þeim leik, erum ofar í töflunni og ættum að vinna að öllu eðlilegu en þetta er nágrannaslagur, það er alltaf öðruvísi stemmning í þessum leikjum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.