„Leið eins og við hefðum tapað“

Þjálfarar Einherja og Hugins/Hattar hefðu báðir vilja fá meira en eitt stig út úr leik liðanna í þriðju deild karla í knattspyrnu á Vopnafirði í gær. Tómas Atli Björgvinsson, fimmtán ára, skoraði sitt fyrsta mark í meistaraflokki þegar hann jafnaði fyrir Einherja.

Það var Höttur/Huginn sem byrjaði leikinn. Ferran Garcia brenndi af víti snemma leiks. Hann bætti þó fyrir það á 31. mínútu þegar hann kom gestunum yfir.

Þannig var staðan í hálftíma, eða þar til Tómas Atli jafnaði fyrir Einherja. Hann fékk þá boltann á eigin vallarhelmingi, lék í áttina að vítateig Hattar/Hugins, lét þar vaða á markið og inn fór boltinn. Þetta var fyrsta mark Tómasar Atla með meistaraflokki í hans öðrum leik með Einherja, en hann er í láni frá Fjarðabyggð.

Þakklátir fyrir stigið eftir erfiða helgi

Þjálfararnir voru báðir ánægðir með sín lið eftir leikinn en hefðu þó viljað meira út úr leiknum. „Heilt yfir var ég ánægður með okkur varnarlega. Við mættum og börðumst eins og ljón og sköpuðum okkur fleiri færi. Við klúðruðum víti í byrjun leiks og fengum eftir það 1-2 mjög góð færi meðan þeir áttu tvö skot á rammann. Mér leið eins og við hefðum tapað þegar ég kom heim í gærkvöldi,“ segir Viðar Jónsson, þjálfari Hattar/Hugins.

Ash Civil, þjálfari Einherja, var ánægður með frammistöðuna eftir 7-2 tap gegn Reyni Sandgerði á sunnudag. „Við urðum að rífa okkur í gang og þetta voru góð viðbrögð eftir erfiðan leik. Maður vill alltaf standa sig í nágrannaslag. Við erum svekktir með að fá bara eitt stig en þiggjum það. Við erum búnir að fá fjögur stig úr tveimur leikjum við Hött sem er eitthvað sem við sækjumst alltaf eftir.“

Hann gat glaðst yfir góðri innkomu Tómasar Atla sem hafði aðeins verið inn á vellinum í fimm mínútur þegar hann skoraði. „Hann kom inn á gegn Reyni og stóð sig vel. Við vissum að hann hefði hæfileika og gæti haft áhrif en ég held að Höttur/Huginn hafi ekki átt von á þessu.“

Hafa trú á að komast ofar í deildinni

En stig á lið gerir lítið fyrir hvorugt þeirra í fallbaráttunni. Höttur er í næst neðsta sæti með 12 stig og Einherji sæti ofar með 14 stig. Deildin er þó enn frekar jöfn og báðir hafa trú á að hagurinn vænkist.

„Við erum ekki þar sem við viljum vera en við tökum einn leik fyrir í einu. Staðan í deildinni getur verið orðin allt önnur eftir 2-3 leiki. Vonandi getum við klifrað upp töfluna á stað þar sem við teljum okkur frekar eiga heima,“ segir Ash.

„Við byrjuðum mótið illa, síðan unnum við loks leik og í næstu leikjum fannst mér við vera að komast í gang. Það hefur verið töluvert rót á liðinu, leikmenn að koma og fara sem hefur haft áhrif. Mér finnst við hafa verið á góðri leið í síðustu leikjum og á ekki von á að við verðum lengi í þessari stöðu. Þetta er hörkudeild, það er ekki hægt að ætlast til að fá þrjú stig í neinum leik án þess að leggja sig fram, “ segir Viðar.

Tveir nýir leikmenn til Einherja

Á miðnætti verður lokað fyrir félagaskipti í íslenska boltanum. Einherji hefur fengið til sín Björn Andra Ingólfsson frá Magna Grenivík auk þess sem beðið er staðfestingar á enskum leikmanni. Ash vonast til að báðir verði með gegn Vængum Júpiters á sunnudag.

Höttur/Huginn mun ekki bæta við sig fleiri leikmönnum en liðið fékk nýverið Norðmanninn Knut Erik Mykleburst, sem lék með liðinu síðasta sumar, eftir að einn af spænsku leikmönnum þess yfirgaf það.

Úr leik Hattar/Hugins og Einherja fyrr í sumar. Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.