Langstærstu félagaskipti í sögu Hattar

Körfuknattleiksmaðurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur samið við Hött um að leika með liðinu í úrvalsdeild karla á næstu leiktíð. Þjálfari liðsins segir Sigurð Gunnar koma með mikla reynslu en hann á að baki tæplega 60 landsleiki auk þess að hafa fimm sinnum orðið Íslandsmeistari.

„Hann kemur með ýmsa þætti sem bæði hefur vantað í okkar lið og félagið. Þetta eru langstærstu félagaskiptin í sögu Hattar.

Það hefur enginn íslenskur leikmaður í hans flokki spilað fyrir Hött. Þetta er leikmaður sem hefur unnið allt sem hægt er að vinna hérlendis auk þess að hafa spilað erlendis. Hann kemur með gríðarlega reynslu, gæði og þekkingu.

Við ætlum að bæta okkur og hætta að vera jójó lið. Til þess þarf að stíga á bensínið. Við vildum finna leikmenn sem getur hjálpað liðinu upp á næsta stig,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Ekki fyrsti íþróttamaðurinn sem meiðist

Sigurður Gunnar var kynntur sem leikmaður Hattar á blaðamannafundi í dag. Hann er fæddur árið 1988 og spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki með Körfuknattleiksfélagi Ísafjarðar áður en hann flutti suður. Þar spilaði hann með Keflavík og síðan Grindavík, Að auki hefur hann spilað í Svíþjóð og Grikklandi.

Síðustu tvö tímabil hefur Sigurður Gunnar leikið með ÍR, en liðið lék vorið 2018 til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Það tímabil var Sigurður valinn í lið ársins. Hann sleit hins vegar krossband í fyrsta leik nýafstaðins tímabils og lék ekki meira með. Fyrir skemmstu kaus ÍR endurnýja ekki samning hans.

„Hann er í endurhæfingu en hann er ekki fyrsti íþróttamaðurinn sem meiðist. Hvort hann verður klár í fyrsta leik á undirbúningstímabilinu á eftir að koma í ljós en ég veit að hann verður flottur fyrir okkur næsta vetur. Það er sama hvort samið er við íslenskan eða erlendan leikmann, það fylgir alltaf einhver áhætta. Oft koma menn sterkari og hungraðri til baka eftir svona mótlæti,“ svarar Viðar spurður um ástand Sigurðar.

Mikilvægur í varnarleiknum

Höttur leikur í úrvalsdeildinni næsta vetur eftir að hafa unnið fyrstu deildina. „Við vorum að horfa eftir leikmönnum sem gætu styrkt okkur, hvort sem þeir kæmu frá íslenskum félögum eða erlendum. Þegar Sigurður Gunnar var laus fórum við að skoða hvort við gætum fengið hann austur. Hann er alinn upp á Ísafirði og oft er líklegra að slíkir leikmenn séu tilbúnir að koma út á land.“

Sigurður Gunnar er 204 sentímetrar á hæð og spilar í stöðu miðherja. „Hann ver körfuna vel og það er mikilvægt að fá hann til að binda varnarleik okkar saman. Hann er meðal betri sendingamanna af stóru mönnunum í deildinni og hann verður okkar ógn í teignum í sókninni. Það á síðan eftir að koma betur í ljós hvernig við aðlögum okkur að honum og hann að okkur.“

Horfa eftir bandarískum bakverði

Tilkoma Sigurðar Gunnars þýðir að Höttur endurnýjar ekki samning sinn við Bandaríkjamanninn Marcus Van, sem lék með liðinu í vetur. Viðar segir að þess í stað sé leitað að bandarískum bakverði.

Aðrir erlendir leikmenn liðsins þeir Matej Karlovic, Dino Stipcic og David Ramos verða allir áfram. Þá segir Viðar Örn að flestir þeir íslensku leikmanna sem spiluðu með liðinu síðasta vetur verði áfram, utan þess að Ásmundur Hrafn Magnússon hefur ákveðið að flytjast búferlum. Þá hefur Hreinn Gunnar Birgisson ákveðið að draga fram skóna á ný.

Viðar segir að þegar búið verið að semja við Bandaríkjamann verði leikmannahópurinn klár fyrir veturinn. „Þá verðum við komnir með þann hóp sem við förum af stað með. En ef körfubolta-superman kemur fljúgandi þá bönnum við honum ekki að lenda á Egilsstöðum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.