Körfubolti: Óafsakanleg frammistaða í ósigri gegn Hamri – Myndir

Höttur tapaði 75-96 fyrir Hamri í mikilvægum leik í fyrstu deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Þjálfari liðsins segir frammistöðu þess hafa verið slaka og liðið skorti stöðugleika. Góðu fréttirnar séu að stutt sé í næsta leik.

Leikurinn var jafn fyrstu þrjá leikhlutana. Höttur leiddi með einu stigi í hálfleik, 41-40 eftir að hafa haft undirtökin í öðrum leikhluta. Munurinn hefði mátt vera stærri en Hattarmenn fengu þriggja stiga körfu á sig í blálokin úr sókn sem hófst þegar sex sekúndur voru eftir.

Hamar seig fram úr í lok þriðja leikhluta og var yfir 65-69. Á lokamínútunni fékk Bandaríkjamaðurinn Charles Clark sína fimmtu villu og þar með útilokun. Fyrst fyrir að brjóta af sér og strax í kjölfarið tæknivillu fyrir mótmæli.

Fjarvera Clark setti mark sitt á leik hattar í síðasta leikhlutanum þar sem Hamar stakk af. Hann var næst stigahæstur með 23 stig en André Huges skoraði 25. Everage Richardson skoraði 40 stig fyrir gestina.

Verða ekki byrjendur í körfubolta á einum degi

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var síður en svo sáttur við frammistöðu liðsins í gærkvöldi. „Mér fannst hún algjörlega ósafsakanleg. Við náðum aldrei takti í leiknum. Við gerðum alltof mikið af klaufamistökum inn á milli og spiluðum ekki sem lið heldur vorum í einstaklingshnoði hér og þar.“

Það segir sína sögu að skotnýting liðsins úr þriggja stiga skotum var 8%. „Að hluta til völdum við vond skot en svo hittum við bara illa. Við virtumst andlega fjarverandi á vítalínunni þar sem við hittum úr 7 af 18 skotum. Menn verða ekki byrjendur í að kasta körfubolta einn daginn.“

Hann var heldur ekki sáttur við brottrekstur Clark sem náði sér í tvær villur í röð. „Það skiptir máli að missa hann því hann er okkar besti maður. Ég er vonsvikinn með viðbrögð hans, þetta var dómgreindarbrestur.“

Samkeppni á toppi deildarinnar er hörð. Höttur, Hamar og Vestri eru öll með 22 stig í 3. – 5. sæti, tveimur stigum á eftir Fjölni. Höttur á leik til góða á þessi lið. Þór Akureyri er með 28 stig og efsta sætið. Höttur fer norður á föstudag.

„Það skiptir máli að enda sem efst í deildinni til að fá heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Það góða eftir þennan afleita leik er það að það er ekki langt í þann næsta. Þar getum við reynt að sýna okkar rétta andlit. Við höfum verið mjög óstöðugir í vetur, við getum verið mjög góðir eða dottið niður á mjög lágt plan.“

Sjöundi ósigurinn í röð

Kvennalið Þróttar í blaki tók á móti Völsungi í úrvalsdeild kvenna á laugardag og tapaði 0-3 eða 19-25, 24-26 og 21-25 í hrinum. Illa hefur árað fyrir liðinu sem þar með tapaði sínum sjöunda leik í röð. Það er í neðsta sæti deildarinnar og á erfitt verk fyrir höndum með að komast inn í úrslitakeppnina, þrátt fyrir að eiga leiki til góða.

Karfa Hottur Hamar Feb19 0001 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0011 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0012 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0013 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0018 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0022 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0024 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0026 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0032 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0036 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0039 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0044 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0046 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0049 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0061 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0063 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0065 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0068 Web
Karfa Hottur Hamar Feb19 0070 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.