Körfubolti: Höttur vann fyrsta leikinn gegn Álftanesi

Höttur vann í gærkvöldi fyrsta leikinn gegn Álftanesi í umspili liðanna um laust sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Höttur hafði tök á leiknum í seinni hálfleik.

Lítið kom á óvart í byrjun, Álftanes byrjaði á að leita inn í teiginn og komst í 2-10 en Höttur snéri því hægt og rólega sér í vil. Friðrik Anton Jónsson hjá Álftanesi og Tim Guers hjá Hetti voru atkvæðamestir í stigaskoruninni og voru báðir komnir í yfir 10 stig eftir fyrsta leikhluta. Álftanes leiddi eftir hann, 23-42.

Leikurinn þróaðist áfram á svipaðan hátt. Liðin leituðu að skynsömum skotum, tóku litla áhættu og forðuðust að fá hraðaupphlaup í bakið. Höttur fór að síga lengra framúr, samhliða því sem liðið breytti vörninni, fór að pressa framar og auka hraðann í leiknum. Í hálfleik var Höttur með 52-47 forskot.

Snemma í þriðja leikhluta var Höttur kominn í tólf stiga forskot, 61-49. Álftanes tók leikhlé og náði aðeins að klípa af forskotinu eftir það en í lok leikhlutans var forskot Hattar 80-71.

Álftanesi tókst að halda í horfinu meðan það hvíldi lykilmenn í byrjun fjórða leikhluta fyrir lokaáhlaupið. Þegar liðið virtist ætla að fara að gera sig líklegt í það settu Hattarmenn niður mikilvægar körfur og héldu í tíu stiga forskotið.

Þriggja stiga karfa Dino Stipcic minnkaði muninn úr 102-92 í 102-95 og svo kom önnur karfa í viðbót. Álftanes fékk fleiri skotfæri í lokin en Höttur sigldi heim 102-97 sigri. Tim Guers dró vanginn hjá Hetti, skoraði 39 stig.

Liðin mætast öðru sinni á Álftanesi á þriðjudagskvöld. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer upp um deild.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.