Körfubolti: Höttur öruggur uppi í fyrsta sinn og á möguleika á úrslitakeppni

Höttur hefur í fyrsta sinn tryggt að lið þess leiki í úrvalsdeild karla í körfuknattleik tvö tímabil í röð eftir sigur á Breiðabliki í gærkvöldi. Þjálfari liðsins segir langtímamarkmið hafa náðst. Liðið getur enn komist í úrslitakeppnina með hagstæðum úrslitum.

Leikurinn gegn Blikum í Kópavogi í gærkvöldi byrjaði ekki vel því heimaliðið skoraði fyrstu átta stigin. Liðnar voru rúmar þrjár mínútur þegar Höttur komst á blað. Átta stiga munur er hins vegar ekki mikill í körfubolta, Höttur minnkaði muninn strax í 8-7 og komst yfir 12-15.

Undir lok leikhlutans tók við annar tveggja mínútna kafli án stiga meðan Breiðablik skoraði tíu stig í röð og var því yfir 22-15. Ein og hálf mínúta leið af öðrum leikhluta án þess að Höttur skoraði og þá var Breiðablik komið í 27-15. Sá munur hélst út leikhlutann og Breiðablik 46-36 yfir í hálfleik.

Höttur lék ljómandi vel í seinni hálfleik. Eftir að Blikar höfðu komist í 52-40 komu 11 stig í röð frá Hetti á tveggja mínútna kafla. Liðið hélt áfram og komst í 55-60 sem minnkaði niður í 65-66 áður en fjórði leikhluti hófst.

Þar setti Höttur upp skotsýningu. Sjö af átta körfum á kafla voru úr þriggja stiga skotum og þegar Breiðablik tók leikhlé um miðjan leikhlutann var staðan orðin 74-89. Höttur landaði síðan sigrinum 85-98. Tim Guers var stigahæstur með 29 stig, Bryan Alberts skoraði 16 og Nemanja Knezevic 14 ásamt því að taka 10 fráköst.

Með sigrinum komst Höttur upp í 16 stig og sendi ÍR niður um deild með KR, þótt liðið ynni Keflavík. Það er merkilegur árangur því Höttur hefur fjórum sinnum áður spilað í úrvalsdeild, 2005-6, 2015-16, 2017-18 og 2020-21 en alltaf fallið.

Stór áfangi fyrir Hött


„Þetta er stór áfangi fyrir Hött, íslenskan körfubolta og íþróttalíf á Austurlandi. Það er erfitt að halda sér uppi í fyrsta sinn, sérstaklega þegar lið er komið með einhvern jó-jó stimpil á sig, er talað niður og ítrekað spáð falli. Það þarf að hafa fyrir því að ávinna sér virðingu og mér finnst vera farið að móta fyrir henni.

Við finnum áhuga á íþróttinni aukast. Iðkendafjöldi í yngri flokkum hefur farið úr 100 í 170 á stuttum tíma og við viljum fjölga iðkendum enn frekar. Við finnum líka áhuga frá fjörðunum og það er keyrt með börn þaðan daglega á æfingar. Við vonumst til að þessi árangur smiti út frá sér í aðrar íþróttagreinar því við viljum öflugt barna- og afreksstarf á Austurlandi.“

Halda með Þór í kvöld


Enn er ein umferð eftir af deildinni og í henni kemur ÍR austur. Úrslitin skipta enn máli, eins og staðan er nú er Höttur í áttunda og síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina, jafnt Breiðabliki og Stjörnunni að stigum en stendur betur í innbyrðisviðureignum. Tveimur stigum ofar er Þór Þorlákshöfn sem spilar gegn Stjörnunni í Garðabæ í kvöld en Þór stendur betur gegn Hetti.

Þetta allt þýðir að ef Þór vinnur í kvöld getur Höttur tryggt sig inn í úrslitakeppnina með sigri á ÍR. Og jafnvel þótt Stjarnan vinni í kvöld á Höttur enn möguleika með sigri en þarf þá að treysta á að Stjarnan tapi sínum síðasta leik.

„Það hefur lengi verið yfirlýst markmið okkar að búa til stabílt úrvalsdeildarlið og við höfum nú tekið risastórt skref í þá átt. Það væri gaman ef því myndi fylgja auka mjúkur pakki og við erum allt sem við getum til að grípa hann.

Það væri gaman fyrir okkur og fólkið í samfélaginu að fá fleiri leiki. Við færum inn í úrslitakeppnina sem áttunda lið og myndum þá mæta Val eða Njarðvík, liðum sem eru líkleg til að keppa um Íslandsmeistaratitilinn – þar til þau mæta okkur.

Við höfum náð okkar markmiði. Sum lið stefna að því að verða Íslandsmeistarar en við ætluðum að halda okkur uppi. Það má ekki gleyma að þetta hefur verið stanslaus vinna í meira í áratug og ég hugsaði að þetta hefði verið þess virði þegar ég lagðist á koddann í gærkvöldi. Við höfum skrifað stóra kafla í íþróttasögu Hattar í vetur með að fara í undanúrslit bikarkeppninnar og ná að halda okkur uppi.“

Frábær frammistaða í seinni hálfleik


Fyrir utan þessa áfanga var frammistaðan í seinni hálfleik í gær ánægjuefni. „Við fórum með ákveðið plan inn í leikinn sem við fylgdum ekki nógu vel eftir í fyrri hálfleik. Þá fengu Blikar of mikið af auðveldum skotum. Í seinni hálfleik small varnarleikurinn. Við lokuðum á auðveldu körfurnar þannig þeir þurftu að taka erfiðari skot.

Við það kom betri taktur í okkar leik. Ég naut þess að standa á hliðarlínunni og horfa á þegar við rispan okkar kom. Við höfum sýnt góða kafla í vetur en ég held að með meiri þroska getum við sýnt meira af þeim og lengri.

Liðsheildin er flott. Hluti af uppbyggingunni hefur falist í að hringla ekki of mikið í leikmannahópnum. Við höfum viljað halda sama kjarnanum og liðsandanum þannig að allir rói í sömu átt.“

Vilja rýmka reglur um erlenda leikmenn og fjölda leikjum


Síðar í dag verður þing Körfuknattleikssambands Íslands sett. Nokkrar tillögur liggja fyrir frá Hetti. Til að mynda að leikmenn frá ríkjum utan Evrópusambandsins, sem búið hafi hérlendis í að minnsta kosti þrjú falli undir sömu reglur og evrópskir leikmenn. Í dag má aðeins einn leikmaður frá ríkjum utan EES vera inni á vellinum hverju sinni. Höttur hefur lengi þrýst á um að halda reglum um erlenda leikmenn rúmum og bent á að liðum úr dreifbýli reynist erfitt að fá til sín íslenska leikmenn.

Þá leggur Höttur til að leikin verði þreföld umferð og tólf lið verði í tveimur efstu deildum karla. Tillaga frá liðum í fyrstu deild karla gengur í aðra átt og önnur lið standa að tillögum um fyrirkomulag í efstu deild kvenna.

Að endingu sendi Höttur inn tillögur um breytta kostnaðarskiptingu liða í bikarkeppni. Í dag er tekjum af bikarleik skipt jafnt, að frádreginni húsaleigu en Höttur vill að heimaliðið fái tekjurnar og beri alfarið ábyrgð á framkvæmd leiksins. Þá vill félagið að lið greiði jafnan ferðakostnað í bikarkeppni yngri flokka.

„Reglulega koma tillögur um að þrengt sé að reglum um erlenda leikmenn því stór félög á höfuðborgarsvæðinu vilja komast í ráðandi stöðu. Við erum með erlenda leikmenn sem hafa búið á Egilsstöðum í nokkur ár og eiga börn í skólanum. Við þurfum að standa vörð um þá. Skoðanir skiptast milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og við þurfum að finna einhverja lendingu þannig að hringlandahátturinn hætti því hann er ekki góður fyrir íþróttina okkar. Síðan liggja fyrir fleiri tillögur meðal annars um rekstur KKÍ þannig þetta verður örugglega spennandi þing.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.