Orkumálinn 2024

Körfubolti: Höttur kominn í úrslitaeinvígið

Höttur er kominn í úrslit um laust sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir að hafa slegið Fjölni út í þremur leikjum í undanúrslitum. Höttur hafði örugg tök á þriðja leik liðanna á Egilsstöðum í gærkvöldi.

Höttur marði fyrsta leikinn fyrir viku með einu stigi en vann annan leikinn í Grafarvogi á mánudag nokkuð örugglega. Liðið var því í lykilstöðu fyrir viðureignina í gærkvöldi og lét það happ ekki úr hendi sleppa.

Höttur var með forstuna frá byrjun en tíu stig í röð í lok fyrsta leikhluta, sem breyttu stöðunni úr 23-23 í 33-23 lögðu grunninn að sigrinum.

Höttur fór vel af stað í öðrum leikhluta og var kominn í 20 stiga mun, 50-30, þegar gestirnir tóku leikhlé. Það bar árangur, Fjölnir skoraði þrettán stig gegn þremur og minnkaði muninn í 53-43. Höttur seig þó aftur fram úr fyrir leikhlé, 57-44.

Fjölnir barðist áfram við að halda muninum í kringum tíu stig en tvær þriggja stiga körfur Tim Guers komu Hetti aftur um 20 stigum yfir, 71-52. Staðan að loknum þriðja leikhluta var orðin 82-64. Eftirleikurinn var síðan einfaldur fyrir Hött sem vann 105-88.

Hetti tókst að leggja leikinn vel upp, ýttu Mirza Sarajlija út úr aðgerðum fyrir utan þriggja stiga línuna og tvímenntu síðan á miðherjann Dwayne Foreman undir körfunni. Meira en 100 stig skoruð sýna að sóknarleikurinn gekk líka vel.

Flest stigin komu frá Tim Guers, sem átti ljómandi fínan leik með 20 stigum og 15 fráköstum. David Guardia skoraði 19 og Adam Eiður Ásgeirsson 17.

Höttur mætir annað hvort Sindra eða Álftanesi í úrslitaeinvíginu. Sindri tók forustuna gegn Álftanesi, 2-1, með sigri á Höfn í gærkvöldi, 89-84. Hornfirðingar rifu sig upp úr vonlítilli stöðu þar sem þeir voru undir, 73-79 þegar fimm mínútur voru eftir. Þrjár þriggja stiga körfur í röð snéru leiknum þeim í vil. Það er hins vegar skarð í Sindraliðinu að Detrek Browning, stigahæsti maður deildarinnar, sleit krossband í hné í síðasta leik liðanna og verður ekki meira með. Þau lið mætast aftur á sunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.