Körfubolti: Höttur kafskotinn af Skallagrími í fjórða leikhluta - Myndir

Höttur er úr leik í bikarkeppni karla í körfuknattleik eftir ósigur gegn Skallagrími á laugardag. Höttur átti fínan leik fram í lok þriðja leikhluta þegar gestirnir úr Borgarnesi tóku að hitta úr þriggja stiga skotum. Kvennalið Þróttar Neskaupstað hóf titilvörn sína á Íslandsmótinu í blaki með tveimur sigrum á nafna sínum úr Reykjavík um helgina.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af en Höttur var jafnan skrefinu á undan og var tveimur stigum yfir í hálfleik, 38-36. Þannig spilaðist leikurinn áfram fram lok þriðja leikhluta að Skallagrímur náði ágætri rispu og komst tveimur stigum yfir.

En á lokamínútunni tók Bandaríkjamaðurinn Aundre Jackson í liði gestanna sig til og skoraði tvær þriggja stiga körfur sem urðu til þess að úrvalsdeildarliðið fór með átta stiga forskot inn í loka leikhlutann.

Þrjár þriggja stiga körfur í röð voru svo það sem drápu leikinn endanlega þannig staðan breyttist úr að vera 58-70 í 60-79. Tuttugu stiga bilið var eitthvað sem Höttur náði ekki að yfirstíga og lokatölurnar urðu 74-97.

Á sama tíma og Skallagrímsliðið hrökk í gírinn fór sóknarleikur Hattar í baklás. Líkt og verið hafði í gegnum leikinn voru leikmenn liðsins að opna ágætis skotfæri en hittu illa og enduðu leikinn með 20% nýtingu úr þriggja stiga skotum.

Lentu á vegg

„Mér fannst ekki hundrað í hættunni þegar við vorum undir eftir þriðja leikhlutann en svo var sem við misstum trúna þegar þeir náðu smá forustu,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

„Við spiluðum þrjá leikhluta vel og fengum opin skot en hittum illa. Mér fannst að við hefðum getað verið búnir að byggja upp betri forustu.“

Höttur mun því einbeita sér að fyrstu deildinni í vetur. Liðið er nú með tveggja vikna frí fram að næsta leik gegn Fjölni. „Við þurfum að bæta okkur og halda úti fjóra leikhluta til að við getum spilað á sama getustigi og úrvalsdeildarliðin því þangað ætlum við okkur.“

Charles Clark var stigahæstur í liði Hattar með 27 og Pranas Skurdauskas tók 16 fráköst.

Sveiflukenndur blakleikur

Kvennalið Þróttar Neskaupstaðar hóf titilvörn sína á Íslandsmótinu í blaki með tveimur leikjum gegn Þrótti Reykjavík um helgina. Þróttur vann báða leikina 3-1 en þurfti að hafa fyrir sigrunum.

Norðfjarðarliðið kastaði frá sér öruggri fyrstu hrinu í fyrri leiknum á laugardag. Liðið var 19-9 yfir sem undir flestum kringumstæðum hefði verið formsatriði að klára, en gestaliðinu tókst á ótúrlegan hátt að vinna 24-26.

Norðfjarðarliðið vann aðra hrinu 25-22 eftir að jafnt hafði verið á flestum tölum. Í þriðju hrinu voru gestirnir yfir 21-23 en fjögur stig í röð tryggðu heimastúlkum sigurinn þar.

Í fjórðu hrinunni breytti Reykjavíkurliðið stöðunni úr 7-7 í 7-14. Heimaliðið saxaði jafnt og þétt á það forskot, jafnaði í 17-17 og vann 25-19.

Öruggari sigur á sunnudag

Í seinni leiknum á sunnudag hafði Norðfjarðarliðið frumkvæðið í fyrstu hrinu og vann hana 25-19. Munurinn var þó ekki verulegur fyrr en í lokum þegar liðið skoraði síðustu fjögur stigin.

Gestaliðið hafði örugga forustu alla aðra hrinu og vann hana 19-25 en Norðfjarðarstúlkur svöruðu strax með 25-21 sigri í þriðju hrinu. Þær voru einnig með örugga forustu í fjórðu hrinu og unnu hana 25-18.

Lara Gázquez Ortega, nýr leikmaður Þróttar, var stigahæst í fyrri leiknum með 18 stig en Tinna Rut Þórarinsdóttir skoraði tólf. Á sunnudag var Heiða Elísabet Gunnarsdóttir stigahæst með 16 stig og Tinna Rut skoraði 12.

Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0001 Web
Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0003 Web
Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0007 Web
Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0009 Web
Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0012 Web
Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0015 Web
Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0020 Web
Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0022 Web
Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0026 Web
Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0029 Web
Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0030 Web
Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0031 Web
Karfa Hottur Skallagrimur Bikar Nov18 0036 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.