Körfubolti: Höttur í fjórðungsúrslit í annað skiptið

Karlalið Hattar í körfuknattleik tryggði sér á mánudagskvöld sæti í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í annað skiptið í sögu félagsins þegar liðið lagði Selfoss á útivelli.

Líkurnar voru með Hetti fyrir leikinn en liðið spilar í úrvalsdeild en Selfoss í þeirri fyrstu. Það var samt heimaliðið sem fór betur af stað, komst í 16-6 sem Höttur minnkaði niður í 22-21 fyrir lok fyrsta leikhluta.

Selfyssingar skoruðu fyrstu níu stigin í öðrum leikhluta og komust í 31-21 en eftir það fór Höttur að snúa leiknum við, komst yfir um miðjan leikhlutann og var yfir 43-45 í hálfleik.

Tökin voru örugg á leiknum í seinni hálfleik. Höttur leiddi 61-72 eftir þriðja leikhluta og vann leikinn 83-92. Stigahæstur var David Guardia með 25 stig en Tim Guers skoraði 16 og Obie Trotter 15. Dregið verður í átta liða úrslitin á mánudag.

Hagur Hattar í úrvalsdeildinni hefur vænkast nokkuð. Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum vann Höttur næstu tvo, gegn Þór Þorlákshöfn og Tindastóli. Liðið leikur á morgun gegn KR í Reykjavík en síðan tekur við landsleikjahlé.

Mynd: Hilmar Sigurbjörnsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.