Körfubolti: Höttur hafði Njarðvíkurljónin í búri

Höttur vann sinn fyrsta leik á tímabilinu í úrvalsdeild karla í körfuknattleik þegar liðið vann Njarðvík 88-83 í jöfnum leik á Egilsstöðum í gærkvöldi. Höttur er nú í úrvalsdeildinni í fjórða sinn en hafði ekki áður unnið í fyrri umferð deildarinnar.

Heimaliðið tók forustuna strax og var 22-13 yfir eftir fyrsta leikhluta þar sem þétt vörn og agaður sóknarleikur gáfu tóninn fyrir það sem koma skyldi.

Í öðrum leikhluta jafnaðist leikurinn þegar Njarðvíkingar náðu að svara varnarleik Hattar og halda heimaliðinu í 16 stigum. Þriggja stiga karfa Michael Mallory á lokasekúndunni þýddi þó að Höttur fór inn í hálfleikinn með tveggja stiga forskot, 38-36.

Varnirnar hurfu í þriðja leikhluta sem Höttur vann 35-28. Sá leikhluti var nánast sýning milli Mallory, sem skoraði 15 stig og Anthonio Hester, leikmanns Njarðvíkur sem skoraði þar 14 stig. Svo fór reyndar að þeir urðu stigahæstir í gær, báðir með 33 stig auk þess sem Hester tók 16 fráköst en Hester 11.

Höttur var því yfir 73-64 þegar síðasti leikhlutinn hófst. Um miðbik hans seig á ógæfuhliðina þegar báðir miðverðir liðsins voru komnir með fimm villur og kom það því í hlut leikmanna sem vanalega spila í stöðu framherja að fara undir körfuna til að hafa hemil á Hester.

Höttur hefur áður verið í góðri stöðu fyrir lokamínúturnar í vetur, má þar nefna Grindavík í fyrstu umferðinni og síðar gegn Val og KR í síðustu útileikjum en í öll skiptin vantaði Hött herslumuninn til að landa sigrinum.

En ef eitthvað var herti liðið tökin á leiknum í gær og lét þrjár þriggja stiga körfur Njarðvíkinga ekki koma sér úr jafnvægi. Aftur þéttist vörnin og sóknarleikurinn var agaður, leikmennirnir nýttu allar þær 24 sekúndur sem í boði voru á skotklukkunni og að lokum var enginn tími eftir fyrir Njarðvík til að jafna.

Klifum stórt fjall

„Þetta er mjög góð tilfinning. Við erum búnir bíða lengi eftir þessum sigri. Þetta er í fyrsta sinn sem lið Hattar vinnur í fyrri umferð í efstu deild. Við vorum að klífa stórt fjall og ég er ánægður með það en núna er það áfram gakk,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, í leikslok.

„Ég fékk ekki 40 góðar mínútur í kvöld en það var ekki á síðustu mínútunum sem allt fór í köku. Okkar slæmi kafli kom í þriðja leikhluta, Rodney (Glasgow) skoraði þá nokkur stig og við lentum sex stigum undir. En ég er ánægður með hvernig við svöruðum, stigum á gasið og komum okkur aftur yfir.

Síðan skorað Njarðvíkingar þriggja stiga körfur í þremur sóknum í röð í fjórða leikhluta. En trúin og orkan var það mikil í okkar liði að það truflaði hana ekkert. Það eru sterkir karakterar í þessum hóp og við vinnum í þessu dag frá degi. Í raun er ótrúlegt hve seint þessi sigur kemur. En aðrir leikur eru búnir og nú er það bara áfram veginn.“

Næsti leikur liðsins er á fimmtudagskvöld gegn Þór Akureyri á heimavelli. Þórsliðið hefur líkt og Höttur verið í basli í vetur, fyrir viku voru bæði liðin án sigurs, en hefur síðan unnið tvo leiki í röð. Þjálfari liðsins er Austfirðingum að góðu kunnu, Bjarki Ármann Oddsson fyrrum þjálfari hjá Körfuknattleiksfélagi Fjarðabyggðar og íþrótta- og tómstundafulltrúi Fjarðabyggðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.