Körfubolti: Höttur fallinn úr úrvalsdeildinni

Höttur féll í gærkvöldi úr úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir 68-80 ósigur gegn Tindastóli á heimavelli. Liðið hefur aldrei náð að halda sér uppi í þau þrjú skipti sem liðið hefur leikið í úrvalsdeildinni.

Fall liðsins var staðfest þegar fjórði leikhlutinn á Egilsstöðum var að hefjast. Á sama tíma lauk leik Vals og Þórs Þorlákshöfn með sigri Vals og þar með var það sem svo lengi hefur vofað yfir staðfest.

Leikmenn Hattar geta annars unað þokkalega við leik sinn í gærkvöldi. Tindastóll spilaði góða vörn og á sama tíma og Hattarmenn hafa svo oft í vetur skemmt fyrir sér í sókninni með að taka ótímabær skot úr erfiðum færum létu þeir í gær tímann ganga og leituðu að besta færinu.

Á sama tíma spiluðu þeir fínan varnarleik og voru vel inni í leiknum fram að hálfleik.

Tindastóll efldi vörn sína enn frekar í þriðja leikhluta, setti þá mikla pressu á bakverði Hattar sem töpuðu þá helst til of mörgum boltum. Við það byggðist upp tíu stiga forskot gestanna.

Þrátt fyrir það hélt Höttur áfram að reyna en í hvert sinn sem liðið virtist vera að fá byr í seglin í síðasta leikhlutanum fundu gestirnir svar í sókninni og skoruðu stórar körfur.

Kelvin Lewis var stigahæstur Hattar í gær með 20 stig en hann er sem stendur stigahæstur í deildinni.

Enn eru þrjár umferðar eftir í deildinni en framundan er tveggja vikna frí áður en Höttur fer suður og spilar gegn KR og Þór Þorlákshöfn. Tímabilinu lýkur svo með heimaleik gegn Njarðvík 8. mars.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar