Körfubolti: Hetti skellt á Álftanesi

Höttur tapaði illa, 105-77, fyrir Álftanesi í fyrstu deild karla þegar liðin mættust á föstudagskvöld. Álftnesingar opnuðu toppbaráttuna með sigrinum og komust upp fyrir Hött, að minnsta kosti um stundarsakir.

Álftanes var einu stigi yfir, 26-25, eftir fyrsta leikhluta en upp úr miðjum öðrum fjórðungi fór að draga í sundur með liðunum. Álftanes skoraði sex stig í röð sem breyttu stöðunni úr 41-38 í 47-38 og leiddi 54-44 í hálfleik.

Eftir að liðin höfðu skorað sitt körfuna hvort á upphafsmínútu seinni hálfleiks, þannig að staðan varð 56-47, fór allt í baklás hjá Hetti. Þremur mínútum síðar var Álftanes komið með meira en 20 stiga skorskot, skorað 12 stig í röð og komið í 68-47.

Þótt sóknarleikur Hattar skánaði gerði vörnin það ekki þannig að eftir leikhlutann var Álftanes 87-55 yfir. Heimaliðið skoraði því 32 stig í einum fjórðungi, sem er afar mikið. Þar með voru úrslitin í raun ráðin.

Tim Guers var stigahæstur í liði Hattar með 19. Þrír fyrrum leikmenn Hattar voru í liðið Álftaness. Af þeim reyndist Eysteinn Bjarni Ævarsson sérlega skæður, skoraði 19 stig, hirti 11 fráköst, átti 8 stoðsendingar og varð efstur á vellinum í framlagsstigum, 31 talsins.

Nokkuð var liðið frá síðasta leik Hattar, en leik liðsins gegn Skallagrími fyrir tveimur vikum var frestað þegar tveir leikmenn Hattar greindust með Covid-smit. Sá leikur verður leikinn milli jóla og nýárs. Höttur mætir annars Fjölni á heimavelli í kvöld og Hamri á föstudagskvöld.

Úrslit helgarinnar og bið Hattar milli leikja hefur breytt stöðunni í deildinni nokkuð. Framan af tímabili fylgdust Höttur og Haukar að á toppnum. Nú hafa liðin bæði tapað tveimur leikjum. Haukar eru hins vegar efstir í deildinni með 20 stig úr 12 leikjum. Höttur er í þriðja sæti, með 16 stig úr 10 leikjum.

Þar á milli er Álftanes með 18 stig úr 12 leikjum. Á eftir Hetti fylgja Sindri og Selfoss, bæði með 14 stig úr 12 leikjum en síðan gestir kvöldgestirnir í Fjölni með 12 stig úr 11 leikjum. Efsta lið deildarinnar fer beint upp um deild en næstu fjögur spila úrslitakeppni um annað úrvalsdeildarsæti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.