Körfubolti: Frábær varnarleikur lykillinn að sigri í toppslag - Myndir

Höttur og Hamar munu að líkindum leika úrslitaleik um hvort liðið spilar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á ári. Línurnar skýrðust þegar Höttur vann þriðja liðið í toppbaráttu fyrstu deildar 93-81 á Egilsstöðum í gærkvöldi. Þjálfari liðsins segir það hafa spilað frábæran varnarleik.

Samkvæmt tölfræðiyfirliti leiksins skiptust liðin fjórum sinnum á forustu í leiknum auk þess sem staðan var einu sinni jöfn. Þessar sveiflur voru allar rétt í byrjun leiksins. Eftir að Höttur komst yfir í 7-5 eftir þrjár og hálfa mínútu leit liðið aldrei um öxl.

Eftir fyrsta leikhluta var staðan 25-14 og þegar fjórar mínútur voru búnar af öðrum leikhluta var staðan 38-19. Grunnurinn að þessari forustu var frábær vörn, eins og stigaskor gestanna sýnir. Sóknarleikur Hattar gekk líka ágætlega, sérstaklega hjá Matej Karlovic sem virtist geta búið sér til skotsvæði upp úr engu og hitt. Karlovic varð enda stigahæstur Hattarliðsins með 25 stig og alls 65% skotnýtingu, þar af hitti hann úr þremur af fjórum skotum utan þriggja stiga línunnar.

Ekki fór að draga saman með liðunum fyrr en tæpar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Staðan breyttist úr 46-31 í 48-39. Blikar hittu þá ágætlega úr skotum sínum og munaði þar meðal annars um þriggja stiga flautu körfu Árna Elmars Hrafnssonar, sem varð stigahæstur Blikanna með 23 stig.

Áfram 10 stiga forskot

Höttur hélt forustunni áfram í kringum 10 stig og var 71-63 yfir eftir þriðja leikhluta. Fyrri hluta fjórða og síðasta leikhluta tókst gestunum úr Kópavogi að minnka muninn í sex stig. Í seinni hálfleik virkaði sóknarleikur Hattar stirður og leikmenn voru óagaðir í skotum sínum.

Nokkra stund gekk hvorugu liðinu að skora, uns Höttur fór í gang á ný. Þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir skoraði Dino Stipcic og kom Hetti í 74-62 og strax í næstu sókn kom Marcus Van Hetti í 14 stiga forustu. Með þessum körfum voru möguleikar gestanna svo að segja úr sögunni.

Bæði Dino og Marcus áttu ágætan leik, Dino sendi níu stoðsendingar og Marcus tók 15 fráköst. Þar munaði í minna því Blikaliðið hafði Hött í fráköstum í leiknum tók 41 gegn 38 og reyndar 20 gegn níu sóknarfráköstum.

Úrslitaleikur 20. mars

Hamar, Höttur og Breiðablik hafa í vetur barist um toppsæti deildarinnar. Innbyrðis hafa liðin skipst á sigrum en unnið alla aðra leiki. Eitt þessara liða fer beint upp í úrvalsdeild og virðast möguleikar Breiðabliks á því úr sögunni eftir tapið í gærkvöldi en liðið hefur nú tapað fjórum leikjum en Höttur og Hamar aðeins tveimur hvort. Því stefnir í hreinan úrslitaleik þegar Höttur og Hamar mætast í Hveragerði í síðustu umferð deildarinnar þann 20. mars.

„Þessi leikur var mjög mikilvægur því Breiðablik er núna tveimur leikjum á eftir okkur og Hamri. Annað liðið getur tapað leik en leikurinn í Hveragerði verður samt úrslitaleikur. Við erum í bílstjórasætinu og það er okkar að setja í rétta gíra, hafa stefnuljós og allar græjur í lagi. Það er þægilegri staða en þurfa að treysta á aðra,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, eftir leikinn.

Æðisleg vörn fyrstu 17 mínúturnar

Hann var ánægður með frammistöðu Hattarliðsins. „Við þurfum að klára alla leiki sem við eigum eftir eins og þennan. Við spiluðum afar vel á köflum. Varnarleikurinn fyrstu 17 mínútur leiksins var æðislegur.

Því miður misstum við sjónar á leik okkar þegar við vorum komnir 18 stigum yfir, töpuðum óþarfa boltum, gerðum mistök og lentum í að hlaupa fram og til baka og skiptast á körfum við Blikana, sem við vildum ekki gera enda Blikaliðið gott.

Það kom fyrir að sóknarleikur okkar var of hægur í þriðja leikhluta, en þrátt fyrir það hélst forustan því hún byggði á sterkum varnarleik.“

Karfa Hottur Breidablik Feb20 0003 Web
Karfa Hottur Breidablik Feb20 0004 Web
Karfa Hottur Breidablik Feb20 0005 Web
Karfa Hottur Breidablik Feb20 0009 Web
Karfa Hottur Breidablik Feb20 0012 Web
Karfa Hottur Breidablik Feb20 0014 Web
Karfa Hottur Breidablik Feb20 0016 Web
Karfa Hottur Breidablik Feb20 0019 Web
Karfa Hottur Breidablik Feb20 0024 Web
Karfa Hottur Breidablik Feb20 0026 Web


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.