Körfubolti: Auðveldur sigur í fyrsta leik Hattar - Myndir

Höttur fer vel af stað í fyrstu deild karla í körfuknattleik en liðið vann nýliða Sindra 101-68 í fyrstu umferðinni á Egilsstöðum í kvöld.

Það var helst í byrjun sem Sindri hélt í við Hött. Fyrirfram mátti búast við nokkrum mun á liðunum, Höttur nýfallinn úr úrvalsdeild og spáð sigri í deildinni en Sindri í henni í fyrsta sinn.

Getumunurinn kom í ljós þegar á leið leikinn. Höttur átti góðan kafla í lok annars leikhluta og í hálfleik var staðan 48-30.

Í upphafi seinni hálfleiks keyrði Höttur yfir Sindra og staðan var orðinn 57-32 minna en tveimur mínútum eftir að hann hófst. Í lok hans var Höttur yfir 77-48. Stóra hluta fjórða leikhluta notaði Höttur leikmenn sem vanalega fá færri tækifæri og fengu allir leikmenn á skýrslu mínútur.

Clark Michelsson stigahæstur

Charles Clark og Andrée Michelsson voru stigahæstir Hattar með 27 stig hvor. Charles var snöggur á fótunum og bæði góður að skjóta og finna samherja. Andrée átti góðan leik og var skotviss fyrir utan þriggja stiga línuna, eins og stundum áður. Varnarmenn Sindra áttu í miklum vandræðum með miðherjann Pranas Skurdauskas og hrukku af honum stundum eins og flugur.

Af heimamönnum Ásmundur Hrafn Magnússon var drífandi í sóknarleiknum og Sigmar Hákonarson í varnarleiknum.

Hjá Sindra var bakvörðurinn Barrington Stevens líflegur framan af leik en Hattarmenn lokuðu algjörlega á hann í seinni hálfleik. Kenny Fluellen var stigahæstur þeirra með 19 stig.

Liðsheildin sterk

„Þetta var dálítið upp og niður í kvöld, en þetta er ekki fullkomið í fyrta leik. Það er ágætt að við höfum eitthvað til að vinna með. Ég var ekki sáttur í byrjun en þetta var gott þegar við fórum í gang,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Hann var ánægður með liðsheildina. „Kosturinn okkar í ár er að við þurfum ekki að treysta á einn leikmann, við eigum marga möguleika í vörn og sókn. Við erum að innprenta mönnum að liðið sé númer eitt, sama hversu margar mínútur þeir spila.

Munurinn var mikill í kvöld en við viljum vera á fullu í 40 mínútur, sama hver staðan er eða hver er á gólfinu, svo ef þeir sem eru inn á fara að slaka á þá höfum við aðra í staðinn.“

Viðar varaði önnur lið við að vanmeta Sindra þótt liðið hefði tapað stórt í kvöld. „Þeir eru með góðan bandarískan bakvörð og heimastráka sem þeir reyna að gera kjarna úr. Þeir eiga eftir að vinna leiki ef þeir bæta í, tala nú ekki um ef þeir fá evrópskan leikmann inn í teig eins og heyrst hefur.“

Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0019 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0023 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0027 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0045 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0049 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0054 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0060 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0065 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0071 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0085 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0096 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0106 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0115 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0126 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0131 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0138 Web
Korfubolti Hottur Sindri Okt18 0140 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar