Knattspyrna: Linli Tu með þrennu í fyrsta deildarleiknum

Hin kínverska Linli Tu skorað þrennu í fyrsta deildarleik sínum með Fjarðabyggð/Hetti/Leikni þegar liðið vann Fjölni 6-1 á laugardag. Knattspyrnufélag Austfjarða náði í stig í sínum fyrsta leik í Íslandsmótinu.

Það var vel mætt í Fjarðabyggðarhöllina á laugardag þegar flautað var til leiks hjá FHL gegn Fjölni í næst efstu deild kvenna, Lengjudeildinni, en liðin fóru saman upp úr annarri deildinni í fyrra. Því var bæði spenna fyrir nýrri deild og eins nokkrum nýjum leikmönnum.

Áhorfendur voru vart sestir í sætin þegar heimaliðið fékk fyrsta færið, Hafdís Ágústsdóttir skaut rétt framhjá samskeytunum eftir gott samspil. Heimaliðið fann því snemma lyktina af marki og sýndi vilja í verki með að pressa Fjölnisliðið framarlega. Það bar árangur á 22. mínútu þegar Lin lagði boltann laglega í hornið eftir sendingu frá Hafdísi, við mikinn fögnuð.

Eftir markið tók við hörð atlaga Grafarvogsliðsins sem fékk þó ekki annað en mark í andlitið á 31. mínútu. Ainhoa Plaza sýndi mikið áræði og fylgdi eftir skoti liðsfélaga sem markvörður Fjölnis hafði varið. Leikurinn jafnaðist eftir þetta og fengu bæði lið færi en fleiri mörk voru ekki skoruð fyrir leikhlé.

Heimakonur mættu ákveðnar í seinni hálfleik og skoruðu strax eftir fimm mínútur. Það gerði Bayleigh Ann Chaviers með með bylmingsskotið utan teigs í hægra hornið, eftir sendingu frá Ainhou. Áhorfendur þurftu svo ekki að bíða í nema aðrar fimm mínútur eftir næsta marki, Alda Ólafsdóttir minnkaði muninn í 3-1 þegar hún komst inn fyrir vörn Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis.

Aðeins andartökum síðar var von Fjölnis um stig úti þegar Linli komst inn í sendingu liðsins og skoraði. Hún fullkomnaði þrennu sína á 81. mínútu með laglegum skalla eftir góða sendingu Hafdísar. Henni var síðan skipt út af þremur mínútum síðar og klöppuðu áhorfendur ákaft fyrir henni enda hún búin að sýna að verðugt verður að fylgjast með henni í sumar.

Heimaliðið hélt þó áfram að hamra á Fjölni. Á 89. mínútu setti Bayleigh góða pressu á Fjölnisvörnina sem endaði með því að hún komst inn í sendingu og setti boltann fram hjá markverði Fjölnis. 6-1 sigri var vel fagnað enda Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir í efsta sæti deildarinnar eftir fyrstu umferðina.

KFA með stig í fyrsta leik

Nokkrum tímum síðar var komið að fyrsta leik nýsameinaðs liðs Fjarðabyggðar og Leiknis, Knattspyrnufélags Austfjarða eða KFA, á sama stað gegn Fjallabyggð. Liðin leika í annarri deild karla. Mykolas Krasnovskis kom KFA yfir á 56. mínútu og Inigo Albizuri bætti við öðru marki sex mínútum síðar. Fjallabyggð minnkaði muninn úr víti á 72. mínútu jafnaði leikinn á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Höttur/Huginn tapaði gegn ÍR í Breiðholti í sömu deild 3-0. Jordian Farahani, fyrrum leikmaður Hattar, skoraði bæði fyrsta og þriðja mark ÍR.

Mynd: Magni Harðarson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.