Knattspyrna: Leiknir heimsækir Stjörnuna í næstu umferð bikarkeppninnar - Myndir

Leiknir og Huginn/Höttur mæta bæði úrvalsdeildarliðum í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu. Leiknir lagði Einherja 3-1 á laugardag í annarri umferð keppninnar.

Tvær deildir skilja liðin að en Einherjamenn börðust vel í fyrri hálfleik. Þess vegna var það þeim skellur þegar Mykolas Krasnovsksis kom Leikni yfir í uppbótartíma.

Stefán Ómar Magnússon bætti síðan við öðru marki fyrir Leikni eftir sex mínútna leik í seinni hálfleik. Leiknir var þá kominn með nokkuð góð tök á leiknum en Recoe Martin minnkaði muninn fyrir Einherja á 63. mínútu. Kifah Mourad gerði út um leikinn á 71. mínútu.

Bæði lið luku leik með tíu leikmenn á vellinum. Zhivko Dinev úr Einherja fékk rautt spjald á 75. mínútu fyrir hefnibrot. Leiknismaðurinn Jesus Suarez fékk sömuleiðis rautt spjald, fyrir tvö gul spjöld, átta mínútum síðar.

Nógu góðir

Leiknir heimsækir Stjörnuna í Garðabæ í 32ja liða úrslitum um miðja næstu viku. Fyrst fer samt Íslandsmótið af stað þar sem Leiknir spilar í sumar í næst efstu deild.

„Mér fannst við ekki frábærir í dag en nógu góðir. Við hefðum getað skorað nokkur mörk í viðbót. Ég held að það hafi verið sanngjarnt að við skoruðum fyrir leikhlé, þeir voru þá búnir að eiga eitt skot að marki.

Það er erfitt að segja hvar við stöndum eftir þennan leik. Við höfum ekki fengið nema einn æfingaleik, sem vart var marktækur. Við hefðum viljað spila fleiri en það var ekki hægt. Þess vegna verðum við að nota leiki eins og þennan til að prófa hvað virkar og hvað ekki,“ sagði Brynjar Skúlason, þjálfari Leiknis, eftir leik.

Svekkjandi að halda ekki lengur hreinu

Ash Civil, þjálfari Einherja, var heilt yfir sáttur við leik liðsins þrátt fyrir tapið. „Það er alltaf erfitt að sjá stóru myndina svona strax eftir leik því maður vill alltaf vinna en heilt yfir er ég sáttur.

Mér fannst við frábærir í fyrri hálfleik og hafa þá í fullu tré við þá. Auðvitað segir það sitt að við erum tveimur deildum neðar. Við vissum þó að við gætum att kappi við þá, spurningin væri bara hve lengi.

Þess vegna var svekkjandi og erfitt að fá á okkur mark rétt fyrir leikhlé. Við brugðumst illa við öðru markinu og urðum pirraðir. Í kjölfarið gekk boltinn á milli liðanna og hvorugt hafi stjórn á leiknum í 25 mínútur. Þó er margt jákvætt í þessum leik þótt ég hefði gjarnan viljað halda áfram okkar góða leik fram í seinni hálfleikinn.“

Einherji hefur líka leik í Íslandsmótinu um næstu helgi. Liðið verður þar án Dinevs sem þarf í leikbann fyrir brottreksturinn auk þess sem Sverrir Hrafn Friðriksson þurfti að fara meiddur af velli þegar tíu mínútur voru eftir.

„Það lítur út fyrir að hann verði frá um hríð sem kemur illa við okkur. Á móti erum við að fá aðra leikmenn aftur inn í hópinn. Mér sýnist samt að við þurfum einn leikmann í viðbót. Ég er samt sáttur við hvernig hlutirnir eru að þróast hjá okkur. Ef við getum spilað eins og við gerðum í fyrri hálfleik þá eigum við eftir að standa okkur vel.“

Kvennaliðið mætir Haukum

Huginn/Höttur mætir Gróttu á Seltjarnarnesi í 32ja liða úrslitunum. Liðið vann í gær Fjarðabyggð 2-1 á Fellavelli. Filip Sakaluk kom Fjarðabyggð yfir strax á annarri mínútu en Steinar Aron Magnússon jafnaði úr víti á 53. Mínútu. Eiríkur Þór Bjarnason tryggði Hetti sigurinn sjö mínútum fyrir leikslok.

Í bikarkeppni kvenna vann Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir Sindra 5-0 í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en í þeim seinni skoraði Adna Mesetovic tvisvar auk þess sem þær Barbara Kopacsi, Elísabet Arna Gunnlaugsdóttir og Freyja Karín Þorvarðardóttir skoruðu sitt markið hver.

Hjá konunum taka næst við 16 liða úrslit keppninnar sem spiluð verða aðra helgina í júlí. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir, sem spilar í 2. deild, mætir þar Haukum í Hafnarfirði en það lið er í fyrstu deild.

Fotbolti Leiknir Einherji Bikar 0001 Web
Fotbolti Leiknir Einherji Bikar 0004 Web
Fotbolti Leiknir Einherji Bikar 0006 Web
Fotbolti Leiknir Einherji Bikar 0009 Web
Fotbolti Leiknir Einherji Bikar 0010 Web
Fotbolti Leiknir Einherji Bikar 0039 Web
Fotbolti Leiknir Einherji Bikar 0043 Web
Fotbolti Leiknir Einherji Bikar 0048 Web
Fotbolti Leiknir Einherji Bikar 0058 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.