Knattspyrna: Höttur/Huginn áfram í bikarnum

Höttur/Huginn tryggði sér í gær sæti í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu með 3-2 sigri á Einherja á Fellavelli.

Vopnfirðingar komust yfir á 13. mínútu með marki Ruben Menéndez og þannig var staðan í hálfleik.

Eftir leikhlé sýndi Höttur/Huginn, sem spilar í sumar tveimur deildum ofar, klærnar. Spefan Spasic jafnaði á 63. mínútu og Brynjar Þorri Magnússon kom liðinu yfir á 65. mínútu áður en Matheus Bettio setti þriðja markið tíu mínútum síðar. Dilyan Kolev skoraði annað mark Einherja í uppbótartíma.

Knattspyrnufélag Austfjarða hefur leik í keppninni þegar liðið mætir Sindra á Hornafirði klukkan 14:00 á morgun.

Eftir helgi verður dregið í 32ja liða úrslitunum, sem leikin verða í lok maí. Þar bætast úrvalsdeildarliðin í hópinn.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir lýkur keppni í B-deild Lengjubikars kvenna þegar liðið mætir Augnabliki í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 14:00 á morgun í frestuðum leik.

Í gær tapaði liðið fyrir Haukum á Ásvöllum 2-1. Heide Giles kom austanliðinu yfir á 50. mínútu. Með sigrinum náðu Haukar sjöunda sæti deildarinnar af Fjarðabyggð/Hetti/Leikni.

Af öðrum íþróttum helgarinnar ber hæst að körfuknattleikslið Hattar getur tryggt sér sæti í úrvalsdeild karla á næsta tímabili með sigri á Álftanesi í kvöld en liðin mætast á Egilsstöðum. Leiknum hefur verið seinkað um klukkustund og hefst klukkan 20:15.

Þá verður lokaumferð Íslandsmeistaramótsins í snjókrossi ekin á Fjarðarheiði á morgun. Byrjað verður að keyra klukkan 12:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.