Knattspyrna: Förum til Eyja til að halda áfram í bikarnum

Þriðju deildarlið Einherja fer til Vestmanneyja í næstu viku og spilar gegn bikarmeisturum ÍBV í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu. Fyrirliði Vopnafjarðarliðsins segir hug í hópnum fyrir ferðinni.

„Það ríki gleði hjá okkur. Ég fagnaði alla veganna.

Ég var rétt búinn að sleppa orðinu um að það væri gaman að fara til Eyja þegar ÍBV kom upp úr hattinum,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, fyrirliði Einherja.

Bjartur er einn fjögurra leikmanna Einherjaliðsins sem eiga ríkulegan frændgarð í Eyjum því föðurbróðir Bjarts flutti þangað og þar búa afkomendur hans.

Einherji komst í 32ja liða úrslitin í fyrsta sinn frá 2009 um helgina með 1-0 sigri á Leikni á Fellavelli. Jökull Ólafsson skoraði markið beint úr aukaspyrnu þegar kortér var eftir.

Einherjamenn eru brattir fyrir leikinn næsta þriðjudag enda hefur undirbúningstímabilið gengið vel. „Við tökum þessu eins og hverju öðru verkefni og mætum til Eyja til að halda áfram í bikarnum. Það hefur verið mikil stemming í hópnum og þjálfari og leikmenn höfðu einsett sér að fara langt í bikarnum.“

Bjartur hefur að undanförnu verið að taka saman sögu Einherja og var búinn að fletta upp síðustu viðureign liðanna þegar Austurfrétt heyrði í honum. „Þau léku nokkrum sinnum saman á níunda áratugnum í gömlu annarri deildinni. Einherji var í henni í sex ár á sínu gullaldartímabili. Liðin mættust síðast þar árið 1989.“

Höttur er hitt Austfjarðaliðið í 32ja liða úrslitum og mætir Kára á Akranesi. Höttur sló Huginn út á föstudagskvöld með 3-0 sigri á heimavelli. Sæbjörn Guðlaugsson skoraði tvö mörk og Petr Mudresa eitt.

Mynd: Feykir/Páll Friðriksson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar