Knattspyrna: Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir örugglega áfram í 16 liða úrslit bikarkeppninnar

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir er komið í 16 liða úrslit bikarkeppni kvenna í knattspyrnu eftir 4-0 sigur á Völsungi frá Húsavík í Fjarðabyggðarhöllinni í gærkvöldi.

Óvenju fáir áhorfendur voru mættir þegar leikurinn hófst. Þótt margar systur væru í höllinni er líklegt að Systurnar í Evrópusöngvakeppninni hafi haldið fólki heima. Ekkert var þó til sparað í umgjörðinni frekar en fyrri daginn, sjálfboðaliðar við grillið með hamborgara og heitt á könnunni.

Völsungur leikur deild neðar en Austfjarðaliðið í sumar og heimaliðið ætlaði sér strax að berja niður alla mögulega mótspyrnu. Þannig stillti það sér upp í upphafsspyrnunni eins og í hlaupakerfi í amerísku NFL deildinni. Völsungar stóðust áhlaupið og svaraði fyrir sig af krafti, áttu sláarskot á 27. mínútu.

Rúmum tveimur mínútum síðar kom fyrsta mark leiksins þegar Linli Tu kom Fjarðabyggð/Hetti/Leikni yfir með laglegu mark eftir gott samspil. Mínútu síðar braut Rósey Björgvinsdóttir, varnarmaður FHL á mótherja rétt utan teigs og fékk gult spjald fyrir. Gestirnir útfærðu aukaspyrnu sína vel en boltinn flaug rétt yfir þverslána. Markverðir beggja liða höfðu í nógu að snúast og rétt fyrir leikhlé kom til kasta Brooklyn Nielsen í marki Völsungs þegar Ainhoa Plaza komst ein inn fyrir.

Hálfleiksræða Björgvins Karls Gunnarssonar, þjálfara FHL, viðist hafa verið skýr því heimakonur óðu yfir gesti sína í byrjun seinni hálfleiks. Strax eftir þrjár mínútur skoraði Yolanda Bonnin eftir fyrirgjöf Bayleigh Chaviers, sem var öflug á kantinum eins og í síðasta leik.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir hélt áfram að sækja og pressa gestina ofarlega á vellinum. Brooklyn markvörður hélt Húsavíkurliðinu inni í leiknum á þessum kafla með að verja eins og berserkur. Eitthvað varð þó undan að láta og á 65. mínútu skoraði Yolanda sitt annað mark, vann þá boltann af varnarmanni gestanna eftir pressu og hamraði hann framhjá markverðinum.

Völsungur sótti aðeins eftir markið, fékk nokkur færi en náði ekki að nýta. Leikurinn var farinn að minna á tennis, boltinn fór fram og til baka milli vallarhelminga. Heimakonur voru ekki hættar, á 86. mínútu settu þær góða pressu á vörn Völsungs, Linli Tu náði boltanum og lék fram hjá tveimur Völsungum áður en hún skoraði með þrumufleyg utan teigs. Hún var síðan nærri búinn að skora þrennu annan leikinn í röð en skalli hennar eftir hornspyrnu á lokamínútunni fór rétt framhjá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.