Knattspyrna: Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir áfram ósigrað

Sigurganga Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis í annarri deild kvenna heldur áfram og hefur liðið nú unnið fyrstu fjóra leiki sína. Leiknir Fáskrúðsfirði er að rétta úr kútnum í annarri deild eftir erfiða byrjun.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir heimsótti Hamar í Hveragerði í gær og fór heim með 0-2 sigur. Freyja Karín Þorvarðardóttir kom austanliðinu yfir á 20. mínútu en seinna markið var sjálfsmark.

„Það voru líka 2 eða 3 mörk dæmd af okkur vegna rangstöðu, sem var svekkjandi en við fengum sigurinn sem skipti öllu máli,“ segir Steinunn Lilja Jóhannesdóttir, fyrirliði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis.

Leikur liðsins gegn Hamri í fyrra varð frægur þar sem hann var stöðvaður og fluttur annað vegna rigningar. Aðstæðurnar í gær voru ekki mikið betri. „Það þurfti ekki að stoppa leikinn núna en þetta var mjög erfitt, grenjandi rigning og rennblautt grasið. Við spiluðum samt ágætlega og náðum köflum þar sem við héldum boltanum á milli demba,“ segir Steinunn Lilja.

Liðið er nú efst í deildinni með fjóra sigra úr fjórum leikjum og mætir næst Völsungi á föstudagskvöld í Fjarðabyggðarhöllinni. Húsavíkurliðið hefur unnið sína fyrstu þrjá, en það kom niður úr fyrstu deildinni fyrir sumarið.

„Við ræddum þann leik aðeins í gær. Við fögnuðum vel þá en núna erum við einbeittar á að klára hann og erum fullar sjálfstrausts. Við vonumst til að sjá sem flesta áhorfendur. Við fórum á úrvalsdeildarleik nú um helgina og erlendu leikmönnunum okkar fannst sérstakt að sjá að fleiri mættu á okkar leiki. Áhorfendur hafa hjálpað okkur og eru í raun okkar tólfti maður.“

Annar sigur Leiknis

Kvennalið Einherja hvíldi um helgina en austfirsku karlaliðin spiluðu öll. Í annarri deild karla vann Leiknir sinn annan leik í röð þegar liðið lagði Kára 1-0 á heimavelli í gær. Fyrirliðinn Arek Grzelak spilaði þar sinn 200. leik fyrir félagið. Björgvin Stefán Pétursson skoraði sigurmarkið á 6. mínútu. Leikmaður gestanna fékk síðan rautt spjald á 85. mínútu fyrir grófa tæklingu. Atvikin má sjá hér að neðan.

Fjarðabyggð gerði jafntefli við Njarðvík á laugardag. Arnór Sölvi Harðarson kom Fjarðabyggð yfir á 73. mínútu en gestirnir jöfnuðu fimm mínútum síðar úr vítaspyrnu. Fjarðabyggð náði þar með í sitt annað stig í sumar og er í 11. sæti en Leiknir er tveimur stigum ofar með sex stig.

Í þriðju deild karla náði KFG að stöðva sigurgöngu Hattar/Hugins en liðin gerði 1-1 jafntefli eystra. Arnar Eide Garðarsson kom Hetti/Huginn yfir á 52. mínútu en gestirnir jöfnuðu á 87. mínútu. Einherji tapaði 6-0 fyrir Augnabliki í Kópavogi. Höttur/Huginn er enn efst í deildinni en Einherji er í 9. sæti með 3 stig.

Mark Björgvins Stefáns.



Brottrekstur Andra Júlíussonar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.