Knattspyrna: Ætlum okkur að enda í fyrsta sæti - Myndir

Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis hafði betur gegn Fjölni í uppgjöri efstu liðanna í annarri deild kvenna þegar liðin mættust á Reyðarfirði í gærkvöldi. Austanliðið hélt uppteknum hætti og skoraði fimm mörk í leiknum en gestirnir tvö.

Fyrir leikinn var Grafarvogsliðið með markatöluna 20-0 eftir fyrstu tvo leikina, en ekki var liðin nema mínúta af leiknum áður en Alexandra Taberner kom heimaliðinu yfir. Löng sending barst inn fyrir vörn Fjölni og Alexandra hristi af sér varnarmenn gestanna áður en hún renndi boltanum í netið. Gestirnir jöfnuðu á 15. mínútu með góðu skoti úr teignum og við það sat í leikhléi.

Freyja Karín Þorvarðardóttir kom Fjarðabyggð/Hetti/Leikni aftur yfir á 56. mínútu en gestirnir jöfnuðu á 72. mínútu. Áhlaup heimaliðsins hófst nánast strax í kjölfarið.

Fyrst skoraði miðvörðurinn Marta Saez úr aukaspyrnu á 76. mínútu, Alexandra skoraði sitt annað mark á 80. mínútu og Ársól Eva Birgisdóttir bætti við fimmta markinu á 85. mínútu, þá nýkomin inn á sem varamaður.

Leikskipulagið gekk upp

„Mér fannst frammistaða okkar í leiknum mjög góð. Heilt yfir spiluðum við okkar leik, það komu kaflar þar sem hann datt niður en í hvert skipti sem við fengum á okkur mark rifum við okkur upp. Við vorum virkilega að vinna hver fyrir aðra enda ákváðum við það fyrir leik.

Við fengum algjöra draumabyrjun en það sem við lögðum upp með, að negla boltanum fram því við erum með þrjár fljótar frammi sem hlaupa, gekk upp.

Í lokin held ég það hafi hjálpað að fá inn ferska fætur sem sýnir sig í því að varamaður skoraði síðasta markið. Síðustu mínúturnar gekk allt upp og við náðum að sprengja okkur út,“ sagði Steinunn Lilja Jóhannesdóttir, fyrirliði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis.

Liðið og allt í kring í framför

Fyrir leikinn höfðu liðin unnið báða fyrstu leiki sína, líkt og Fram og Völsungur, en með áberandi besta markahlutfallið. Nú er austanliðið efst með níu stig úr þremur leikjum en Fram og Völsungur eiga leik til góða. „Það var mikill fögnuður hjá okkur eftir leikinn en líka í áhorfendum. Þeir mættu margir, stóðu upp og klöppuðu fyrir okkur í lokin. Við vorum mjög ánæg með að sjá þá.“

Liðið hefur skorað fimm mörk í öllum leikjum sínum til þessa. „Vonandi höldum við þessu áfram. Við erum með frábæra liðsheild í ár, erum duglegar að gera eitthvað saman utan boltans og ég held að það hjálpi. Við erum líka í framför með góðar stelpur að koma upp úr þriðja flokki.“

Steinunn Lilja segir sigurinn skipta máli fyrir markmið liðsins um að vera annað þeirra tveggja sem komist upp um deild í haust. „Við ætlum okkur að enda í fyrsta sæti, enda höfum við stefnt þangað síðan Björgvin Karl (Gunnarsson) tók við sem þjálfari 2019. Hann hefur styrkt okkur mikið og umgjörðin í kringum liðið orðið allt önnur, hún er nú til fyrirmyndar. Þess vegna skiptir þessi sigur okkur gríðarlegu máli.“

Leikir helgarinnar

Næsti leikur Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis verður á sunnudag gegn Þrótti í 16 liða úrslitum. Þann dag tekur Einherji á móti Hamri í deildinni.

Í annarri deild karla tekur Leiknir á móti Reyni Sandgerði á morgun en Fjarðabyggð spilar gegn KV í Reykjavík. Í þriðju deildinni fer Höttur til Vestmannaeyja og leikur gegn KFS en Einherji fær Elliða í heimsókn.

Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0004 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0005 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0007 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0012 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0014 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0015 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0022 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0048 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0064 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0072 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0076 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0079 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0089 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0091 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0093 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0100 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0104 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0106 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0109 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0110 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0114 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0118 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0120 Web
Fotbolti Fhl Fjolnir Mai21 0124 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.